151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[12:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Það er óhjákvæmilegt að byrja á að nefna meðferð þessa máls sem hefur verið mjög furðuleg. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, flutningsmaður málsins og formaður atvinnuveganefndar, virtist í gærkvöldi rengja orð hæstv. forseta Steingríms J. Sigfússonar sem hann lét falla í pontu þann 7. desember um hvernig meðferð málsins yrði háttað. Þá gerðu þingmenn ráð fyrir því að málið færi inn til nefndar á meðan á 2. umr. stæði til að hægt væri að bregðast við þeim fjölmörgu athugasemdum sem komið hefðu fram og göllum á málsmeðferðinni. Það virðist ekki hafa verið gert. Það var haldinn einn skyndifundur daginn eftir í nefndinni en afraksturinn af honum var enginn og það hefur ekkert verið kynnt fyrir þingmönnum að meiri hlutinn hyggist gera nokkrar lagfæringar á þessu máli í framhaldi af þeim fundi. Svo dúkkar málið allt í einu upp aftur, enn jafn gallað og það var þegar ástæða var talin til að setja það í nefnd til lagfæringar.

Ég ætla að byrja á því að víkja aðeins að einni af grundvallarspurningunum um þetta mál, spurningunni um hvernig það samrýmist stjórnarskrá. Þetta kom til umræðu strax þann 7. desember og svo aftur í gær en einn fárra þingmanna sem hafa talað fyrir þessu máli, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, flutningsmaður málsins ásamt öðrum, virtist ekki vera alveg viss hvað varðaði stjórnarskrána og hvernig málið stæðist hana, taldi að menn þyrftu þá bara að nema úr gildi lögin sem sett voru um þessi mál fyrir um áratug síðan. Hún taldi engu að síður réttlætanlegt að slíkt mál, sem vafi leikur á að standist stjórnarskrá, yrði þróað með þeim hætti að refsingar yrðu auknar við því að fylgja ekki leiðbeiningum. Mál sem menn treysta sér jafnvel ekki alveg til að fullyrða að standist stjórnarskrá en treysta sér til að leggja til og berjast fyrir auknum refsingum fyrir það að fylgja ekki málinu.

Í tengslum við þetta, stjórnarskrána og kröfur um að fylgja þessum illfylgjanlegu reglum, er áhugavert að líta til andsvars hv. þm. Sigríðar Á. Andersen þann 7. desember þar sem hv. þingmaður segir, með leyfi forseta:

„Þá liggur beinast við að spyrja hv. framsögumann hvort það hafi verið farið í einhverja rannsókn við meðferð þessa máls á því af hverju það sé nú, hverju það sæti að fyrirtæki uppfylli þetta ekki og hvort þeirri spurningu hafi verið velt upp hvort það geti verið þannig, það sé einhver möguleiki á því að ástæðan fyrir því að ekki öll fyrirtæki uppfylla þetta sé sú að þau hreinlega geti það ekki.“

Hv. þingmaður veltir þessu fyrir sér áfram og bendir á það sem ég var að koma inn á áðan, hversu undarlegt það sé að auka refsingar við einhverju sem menn geta jafnvel ekki uppfyllt, svo ekki sé minnst á vafann sem leikur á því að þetta standist stjórnarskrá. Ég hef einmitt velt því mikið fyrir mér hvernig í ósköpunum öll fyrirtæki eiga að geta uppfyllt þessi skilyrði sem, ef þetta frumvarp verður samþykkt, gætu legið 100.000 kr. dagsektir við að uppfylla ekki.

Nú ætla ég aftur að taka raundæmi, herra forseti, eins og ég gerði í gær og ætla bara að halda áfram með sama dæmið. Þar nefndi ég ímyndað fyrirtæki sem fimm ungar konur hefðu stofnað eftir háskólanám um hugmynd sem þær fengu. Þær áttu jafnan hlut í þessu fyrirtæki, 20% hver. Gefum okkur nú að hver þeirra seldi 5% og eftir ætti hver 15%, fimm konur með 15% hlut hver. Hitt sem selt var færi til 25 eiganda sem hver um sig ætti 1% í fyrirtækinu. Þá eiga stofnendurnir fimm samtals 75% í fyrirtækinu, nýju hluthafarnir, litlu hluthafarnir 25%. Hvað gerist svo þegar haldinn er aðalfundur og konurnar fimm, stofnendur fyrirtækisins, konurnar sem byggðu það upp, vilja eðlilega allar sitja í stjórn? Það er kosið en einungis þrjár þeirra mega sitja í stjórninni. Fyrir vikið fær þá væntanlega 1% hluthafi sem bauð sig fram sæti í stjórn ef hann er karl og annar karl með 1% kemur í stjórnina líka. Við erum þá komin með stjórn í fyrirtækinu þar sem stærstu eigendurnir, tveir þeirra a.m.k., mega ekki sitja í stjórn og stýra fyrirtækinu en þeir sem eiga bara 1% komast inn í stjórn eingöngu vegna þess af hvoru kyninu þeir eru. Þróum þetta svo aðeins áfram. Segjum sem svo að það færi svo illa í þessu fyrirtæki að það kæmi upp grundvallarágreiningur, deilur um hvernig fyrirtækið ætti að starfa og einn eigendanna vilji fara allt aðra leið en hinir, fara í áhættusamar fjárfestingar, reka framkvæmdastjórann og breyta fyrirtækinu í grundvallaratriðum. Þá gæti væntanlega þessi eini eigandi, einn af fimm, samið við tvo af litlu hluthöfunum, karlkyns, sem hvor um sig á 1%, um að taka yfir stjórn fyrirtækisins. Svoleiðis að þessi eina af fimm sem vill gjörbreyta fyrirtækinu fær sitt stjórnarsæti, tvær konur í viðbót fá sitt sæti og samverkamennirnir tveir sem hvor um sig á aðeins 1% í fyrirtækinu fá sitt sæti. Þá er staðan orðin sú að hluthafar með 17% hlut í fyrirtækinu eru búnir að taka yfir stjórn þess í andstöðu við 83% eignarhlut.

Herra forseti. Þetta er áminning um að þetta mál vegur ekki aðeins að eignarréttinum heldur er það líka ólýðræðislegt því að fyrirtæki í okkar samfélagi eiga að starfa lýðræðislega í samræmi við eignarhlut. En hér hef ég nefnt tvö dæmi. Það mætti nefna fjölmörg önnur dæmi auðvitað um hvað svona inngrip getur haft í för með sér, tvö dæmi um það hvers vegna þetta er órökrétt, ólýðræðislegt og vegur að grunngildum eins og eignarrétti.

Svo má velta því upp hvers konar jafnrétti felist í því, svo ég taki annað ímyndað dæmi, ef það væru 700 stjórnarmenn í fyrirtækjum þessarar stærðar á Íslandi í allt. 700 manns sætu í stjórnum, 600 karlar en aðeins 100 konur. En stjórnarsætunum væri jafnt skipt milli kynja, konurnar væru bara í miklu fleiri stjórnum hver um sig, atvinnustjórnarmenn. Við höfum reyndar séð ákveðinn hóp kvenna auglýsa eftir því að þær hafi áhuga á að taka slíkt að sér. Er það jafnrétti, herra forseti, ef konur eru margfalt ólíklegri til að fá stjórnarsæti, gerast stjórnarmenn í fyrirtæki, en kynjahlutföllin eru engu að síður jöfn í stjórnum fyrirtækjanna?

Þetta mál vekur upp svo margar spurningar að við gætum þurft að ræða það aðeins áfram. En aðalatriðið er þetta, herra forseti: Þetta mál er órökrétt. Það er ólýðræðislegt og ósanngjarnt.