151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Jú, auðvitað eru til dæmi eins og ákvæðin í 6. gr., heimild til að selja fjármálastofnanir. Það er hins vegar eðlisólíkt að því leyti að þar má gera ráð fyrir að nánast alltaf sé nógur tími til að vinna þá vinnu og að taka ákvörðun og senda frá sér einhverjar umsagnir og þess háttar. Þetta eru svolítið eðlisólík mál. Sóttvarnamálin krefjast skjótrar úrlausnar. Þá komum við kannski að hinu sem þingmaðurinn var að nefna, að stundum sé þingið rosasnöggt að gera hluti og það getur stundum átt við. En ég er þeirrar skoðunar að betur fari á því að þingið fái tækifæri og það sé áskilnaður um að þingið fái tækifæri til að ræða þessi mál við þann ráðherra sem endanlega tekur ákvarðanirnar, gera athugasemdir við þær og hafa þannig áhrif á gang mála fremur en að þingið komi með beinum hætti að úrvinnslu aðgerða vegna faraldurs frá degi til dags. Ég held að það sé skynsamlegri leið. Ef menn vilja skoða hitt frekar þá er enn meiri ástæða til þess að taka á því við heildarendurskoðunina þannig að við séum ekki að breyta stjórnsýslunni í sambandi við „rekstur eins faraldurs“, ef við getum talað þannig, þ.e. í miðjum faraldri. Ég held að það sé kannski málið.