151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Auðvitað er ég í grunninn sammála honum um að það er mjög erfitt að girða fyrir allt í lögum. En hlutverk okkar er að sjálfsögðu það sem við erum að reyna að gera, að hafa hlutina eins skýra og mögulegt er. Að mínu viti voru eiginlega tvenns konar aðgerðir sem biðu okkar þegar faraldurinn skall á. Annars vegar sóttvarnalegar aðgerðir þar sem við þurftum að grípa til lokana, þar sem við þurftum að grípa til aðgerða af út af því að faraldur var á ferðinni. Hins vegar eru það efnahagslegar aðgerðir sem fylgja í kjölfarið. Ég er kannski að fá þetta á heilann, ég veit það ekki, en ég er aðeins upptekinn af því hvort við séum búin að ræða nógu vel hvort aðgerðir stjórnvalda kunni að hafa orsakað óþarfa neikvæð áhrif á atvinnulífið, á fyrirtæki og þar af leiðandi mögulega skapað ríkinu einhverjar skaðabætur vegna þess að teknar hafi verið of veigamiklar ákvarðanir, (Forseti hringir.) of óljósar o.s.frv.