132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Fjármálafræðsla í skólum.

322. mál
[12:46]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég er algerlega ósammála hv. þm. Valdimari L. Friðrikssyni því það er einmitt verið að fara sérstaklega yfir þessa þætti. Það er verið að veita skólunum svigrúm og mér finnst miður, og kemur kannski ekki á óvart, sú forsjárhyggja sem skín í gegn hjá hv. þingmanni að ráðuneytið eigi ekki bara að setja fram almennar reglur í gegnum námskrá. Við veitum skólunum svigrúm. Mér finnst líka miður (Gripið fram í.) að hv. þingmaður hafi komið hingað í ræðustól Alþingis og gagnrýnt Flensborgarskólann sem hefur náttúrlega líka sitt svigrúm eins og aðrir skólar til að velja námsefni og gerir það. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er verið að vinna að þessu. Verið er að auka fræðslu markvisst varðandi fjármál einstaklinga á öllum stigum skólasamfélagsins eins og ég kom inn á áðan og benti m.a. á þau námsgögn sem Námsgagnastofnun hefur sett fram á unglingastigi í grunnskóla.

Hins vegar er líka rétt að draga fram að ég hef átt samræður við m.a. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja sem hafa lýst yfir miklum áhuga á þessu máli sem og ákveðnir skólar sem vilja leggja sig mjög fram varðandi þetta tiltekna efni. En aðalatriðið er að verið er að vinna í þessu. Það er verið að efla fræðslu varðandi fjármál einstaklinga því að allir eru meðvitaðir um það, a.m.k. í skólasamfélaginu, að efla þurfi þekkingu nemenda á öllum skólastigum varðandi fjármál fyrirtækja. Ef það er stefna Samfylkingarinnar varðandi námskrár að auka forsjána þá er það stefna sem kemur ekki á óvart en það er ágætt að fá hana undirstrikaða frá hv. þingmanni.