138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé í annað sinn síðan ég byrjaði á þingi sem ég kem gagngert í ræðustól til að biðja hinn unga hv. þingmann sem talaði áðan um að leiðbeina mér. Þó að ég sé eldri að árum er hann lotinn af þingreynslu miðað við mig.

Það sem mig langar til að spyrja hann um er smáyfirlit yfir söguna. Nú klofnaði Alþýðubandalagið fyrir margt löngu upp í annars vegar Samfylkingu og hins vegar Vinstri græna og þeir kusu sér nafnið Vinstri hreyfingin – grænt framboð vegna þess að þeir sögðust berjast fyrir umhverfisvernd, réttlátri umhverfisvernd og vinstri sjónarmiðum almennt. Þetta er svo sem þekkt stefna í heiminum en það vekur mikla athygli — og það er einmitt það sem ég ætlaði að biðja hv. þingmann að fræða mig aðeins um — að hér höfum við rætt frumvarp sem vinstri flokkarnir hafa haldið fram að sé fyrsta frumvarp sem setji auðlindagjöld og hægt er með nokkrum sanni líka að segja að þetta sé fyrsta stóra frumvarp í umhverfisgjöldum.

Í þessari umræðu hefur ekki nokkur frá Vinstri grænum sést í salnum, ekki einu sinni skjótast fram hjá salnum. Heldur hv. þingmaður að það geti verið að þær miklu hugsjónir um umhverfisvernd og annað slíkt sé bara til að slá ryki í augu kjósenda, að þetta sé eftir allt gamla góða Alþýðubandalagið með smáskattaívafi?