141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Því ber nú að fagna á þessu fagra síðdegi að nú þegar hafa tveir ráðherrar orðið við kalli þeirra sem mæla mest í þessu máli og komið hingað og tekið sæti í þingsalnum. Það eru hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Ég tel að í svo stórum málum sem verður að ríkja breið sátt um þá verði ráðherranna að leggja við hlustir í þingsal og horfa á það sem fer fram. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir fagráðherrana í hverju máli að geta gripið inn í umræðuna, leiðrétt ef um einhvern misskilning er að ræða eða upplýst enn frekar. Í mörgum málum er það þannig að við í minni hlutanum tölum fyrir tómum sal og fáum ekki svör við þeim spurningum sem við höfum.

Við ræðum áfram rammaáætlun sem hefur verið farið nokkuð vel yfir. Ég hef ekki blandað mér í umræðu um þá virkjunarkosti sem voru teknir út úr rammaáætlun heldur lít ég til lögformlegra leiða, túlkun laganna og umræðu um þingsályktunartillöguna sjálfa vegna þess að þar liggur mitt sérsvið. Fulltrúar Framsóknarflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd eru betur til þess fallnir að fjalla um virkjunarkostina sem voru teknir úr nýtingarflokki og settir í bið.

Það sem stendur upp úr að mínu mati er það sem ég hef komið inn á í andsvörum. Að það þurfti að mati þeirra sem komu að þessari vinnu komu að skjóta nokkurs konar lagagrunni undir rammaáætlunina. Gera hana lögformlega svo hægt væri að vísa til þess í framtíðinni að sú 13 ára heildstæða vinna sem farið var af stað með í sátt og samlyndi á faglegum nótum liti til erlendra ríkja varðandi röðun á virkjunarkostum, því sem fór í bið og því sem fór í friðlýsingu. Að þetta afar faglega ferli mundi byggja á lagalegum grunni.

Það voru síðan samþykkt lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011, 11. maí 2011 eins og ég hef farið yfir. Þar var lögformlegum stoðum skotið undir rammaáætlunina. Það sem gerist hins vegar í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem engum datt í hug þegar frumvarpið sem varð síðan að lögum var til umræðu í þinginu, er að ríkisstjórnin fer þá leið sem við stöndum nú frammi fyrir og sitjum uppi með að því er virðist vera. Að setja fingur sína í ferlið á lokametrum í vinnslu plaggsins og breyta því frá því sem var búið að samþykkja og raunverulega að mynda sátt um.

Ég hef að nokkru leyti líkt því ferli við stjórnarskrárferlið því það kemur fram í þessari þingsályktunartillögu að sérstök vefsíða var opnuð til að gera allar upplýsingar og ákvarðanir opnar strax fyrir almenningi. Það var lögð áhersla á að leita samráðs við hagsmunaaðila o.s.frv. Það var að skapast þjóðarsátt um tillöguna en þá var svikið, eins og vinstri flokkarnir hafa svo oft gert eftir að þeir komust til valda, málum breytt og þau sett í uppnám.

Við sjáum það á lengd þessarar umræðu hér við síðari umr. að það ríkir síður en svo sátt með þær breytingartillögur sem ríkisstjórnin leggur upp með í rammaáætlun. Við þingmenn erum að reyna að finna út úr því lagatæknilega séð hvernig er hægt að vinda ofan af þessari vitleysu, komist ríkisstjórnin áfram með málið í gegnum þingið. Það eru einungis örfáar vikur fram að kosningum. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli fara fram með málið í ófriði korter í kosningar og binda þar með hendur næstu ríkisstjórnar í því veigamikla máli sem var fullkomin sátt og samkomulag um. Auðvitað þurftu allir að gefa eftir eins og þegar um samningaviðræður er að ræða en þetta er enn eitt málið sem ríkisstjórnin kýs að fara fram með í ófriði þegar friður er í boði. Líklega verða það eftirmæli þessarar ríkisstjórnar að fara fram með mál í ófriði þegar friður er í boði.