145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræddi framhaldsskólana og rekstrarumhverfi þeirra og hefur greinilega miklar áhyggjur af því sem þar er að gerast. Ég tek undir áhyggjur þingmannsins hvað það varðar. Engar sérstakar breytingartillögur eru frá meiri hluta fjárlaganefndar sem ganga til framhaldsskólanna almennt. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hún ekki áhyggjur af því? Hefur hún barist og reynt að hafa áhrif þar á en orðið undir í þeirri baráttu? Ég spyr hv. þingmann líka um framhaldsskóla úti á landi nú þegar atvinnuleysi er minna og færri eru í árgöngum, stytting námstíma til stúdentspróf fer að tikka inn og skólarnir hafa ekki leyfi til að sinna menntunarþörf á svæðinu þar sem 25 ára og eldri eru síðastir inn og skólunum er þröngur stakkur skorinn til að taka við slíkum nemendum. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því (Forseti hringir.) að stoðir samfélaganna úti um land veikist á næstu árum ef eitthvað stórkostlegt gerist ekki í þeim efnum?