150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:41]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór hér aðeins yfir 62. og 65. gr. stjórnarskrárinnar, virtist reyndar, hygg ég, misskilja svolítið málflutning þess sem hér stendur og þeirra sem hafa talað um það. Sá sem hér stendur veit mætavel að þau lög sem hér er lagt til að verði breytt standast stjórnarskrá. Ég veit mætavel að 62. gr. stjórnarskrárinnar er til staðar. Ég veit alveg hvað hún þýðir og hvaða heimildir hún veitir. Hún veitir t.d. heimildir til að mismuna trúfélögum, nánar tiltekið í þágu eins tiltekins trúfélags sem í daglegu tali er kallað þjóðkirkjan. Það er það sem 62. gr. gerir.

Við erum ekki í réttarsal, virðulegi forseti. Hér er löggjafarsamkundan, hér ætlum við að ákveða hvernig við ætlum að hafa hlutina. Við erum ekki að spyrja að því hvernig lögin virki og skera úr um það. Við erum hér til að skýra það hvernig lögin eigi að vera samkvæmt okkar sannfæringu. Hér er því ekki um að ræða einhvern lagatúlkunarágreining milli mín og hv. þingmanns. Ég er ekki lagatæknilega ósammála neinu því sem hann sagði. Ég er ósammála hv. þingmanni um það hvernig lögin og stjórnarskrá eigi að vera.

Ég hygg að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann fjallaði um það að 65. gr. stjórnarskrárinnar, jafnræðisklausan, gangi ekki framar þjóðkirkjuákvæðinu. Og það er nákvæmlega vandinn. Ég geri barnslega ráð fyrir því að hv. þingmaður og flokkssystkin hans séu hlynnt jafnræði fyrir lögum og telji í hjarta sínu að allir borgarar eigi að vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kyns, kynferðis, kyntjáningar og trúarbragða. En ég fæ þá afstöðu mjög illa til þess að ríma við það að hv. þingmaður styður á sama hátt 62. gr. stjórnarskrárinnar sem heimilar þessa mismunun. Punkturinn er þessi: Ef við myndum ekki gera neitt annað við stjórnarskrána en að fjarlægja 62. gr. (Forseti hringir.) þá er augljóst að þau lög sem hér er verið að leggja til að verði breytt myndu ekki standast stjórnarskrá vegna jafnræðisklausunnar. Er hv. þingmaður sammála mér um það?