131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:15]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í lokin fá að vitna í orð dr. Harðar Arnarsonar sem er forstjóri Marels. Hann veit nákvæmlega hvernig þörfin skapast á hinum almenna markaði. Hann segir, með leyfi forseta:

„Innlend samkeppni er alltaf til góðs. ... Þeim sem fyrir eru líður oft illa með nýja samkeppni, þótt fæstir vilji viðurkenna það. Sama gildir um menntastofnanir. Þau rök halda ekki, ef nýr aðili kemur inn á markaðinn t.d. með verkfræðinám, að þá verði nám í báðum háskólunum lakara en í þeim sem fyrir var. Þannig hræðsluáróður er ekki boðlegur nú á tímum og vonandi að þeir sem óttast samkeppni beiti almennt ekki þessum rökum.“