151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu hér á eftir hyggst ég fara aðeins meira út í þetta með hælisleitendakerfið og kvótaflóttamenn en ég held að það sé ákveðinn sannleikur í því sem hv. þingmaður segir um það, að við getum alveg lært ýmislegt af því hvernig við tökum við kvótaflóttamönnum og beitt því á önnur kerfi. Þar er stuðningur og hjálp við að aðlagast samfélaginu sem er ekki til staðar í öðrum kerfum, eða alla vega ekki þar til mjög nýlega.

Ég er ekki alveg viss um að ég hafi komið spurningu minni eða athugasemd nógu skýrt fram, en það að taka ákvörðun um hvort mál fái efnismeðferð tekur meiri tíma en 48 klukkustundir, ekki vegna þess að löggjöfin á Íslandi er eins og hún er eða vegna þess að við setjum ekki næga peninga í málaflokkinn heldur vegna þess að það tekur einfaldlega lengri tíma að fá tilheyrandi gögn frá öðrum ríkjum til að taka þá ákvörðun. Það að senda manneskju til baka þýðir að ríkið sem tekur við manneskjunni þarf að vera búið að samþykkja það ferli. Það er ákveðið ferli sem á sér stað. Og samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni sjálfri hafa ríki þriggja mánaða frest til að gera þetta, sem er umtalsvert meira en 48 klukkustundir. Svo er raunin auðvitað alls konar vegna þess að þessi kerfi eru mjög misjafnlega drekkhlaðin verkefnum. Meira um það í ræðu minni á eftir.

Hv. þingmaður sagði að við hefðum ekki efni á þessu. Ég gæti alveg rökrætt við hv. þingmanna um það. Ég er ekki að því, ég er að tala um áhrif þess að samþykkja þessa þingsályktunartillögu vegna þeirrar staðreyndar sem ég var að lýsa sem gerir það að verkum, að því er virðist þvert á vilja flutningsmanna tillögunnar, að öll mál, fyrir utan þessi 38 mál sem koma frá svokölluðum öruggum ríkjum, að öll hin málin, það 331 sem hv. þingmaður m.a. nefndi, fengju öll efnismeðferð á Íslandi ef þetta mál yrði samþykkt. Ég fæ ekki séð að það sé markmið flutningsmanna. Þar af leiðandi er greinilegur galli á málinu þannig séð sem er kannski hægt að takast á við í nefnd. (Forseti hringir.) Ég veit ekki alveg hverju ég á að spyrja að eða hvernig á að skýra það, virðulegi forseti, en ég fæ ekki betur séð en að það vanti inn í tillöguna að taka tillit til þess hvað það tekur langan tíma að fá gögnin sem þarf frá erlendum ríkjum til að taka þá ákvörðun sem hér er lagt til að verði tekin innan 48 klukkustunda.