154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[22:42]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Að gera slíkar grundvallarbreytingar eins og hér er verið að gera á einhverju hundavaði kann ekki góðri lukku að stýra. Það er í sjálfu sér ekkert að því að gera grundvallarbreytingar, það þarf bara að vanda vel til verka. Þarna er eins og farið hafi verið af stað án fyrirheits og málið ekki hugsað til enda. Það eigi hins vegar að gera það seinna. En afleiðingarnar af þessari breytingu geta verið verulega íþyngjandi og neikvæðar fyrir marga aðila. Þess vegna hef ég í nefndinni lagt til tvær breytingartillögur, annars vegar um að hámarkið af þessari breytingu geti aldrei farið upp fyrir 180.000 kr., miðað við 30.000 km keyrslu á ári, og einnig að lögin taki ekki gildi fyrr en að ári liðnu. Ég held að við þurfum bara að undirbúa okkur betur, vanda okkur betur.