133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er rétt að ekki sé hægt að binda hendur tilvonandi stjórnenda Ríkisútvarpsins fram yfir næstu kjarasamninga, þá er náttúrlega rangt að segja að réttindi starfsfólks séu tryggð til frambúðar því það eru þau ekki. Það var sérstaklega tekið fram að þetta væri í samþykktum Framsóknarflokksins, að standa við þennan ásetning en það er ekki gert, og menn eiga ekki að láta annað í veðri vaka.

Síðan er hitt að til standi með frumvarpi að draga úr pólitískum afskiptum á Ríkisútvarpinu. Þvert á móti er verið að stórauka þau og skapa einræðisvald innan veggja stofnunarinnar og það er skref aftur á bak.

Síðan vil ég nefna það sem hér hefur margoft verið rætt að menn hafa miklar efasemdir um að frumvarpið komi til með að standast samkeppnislög og Evrópurétt og setji starfsumhverfi Ríkisútvarpsins í uppnám af þeim sökum. Ég spyr hv. þingmann, fulltrúa Framsóknarflokksins við þessa umræðu: Ef það var í samþykkt Framsóknar að standa vörð um Ríkisútvarpið til frambúðar, hvernig réttlætir hv. þingmaður fyrir sjálfum sér og flokki sínum þessa óvissu?