150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

orð utanríkisráðherra á nefndarfundi og í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hvernig bæði þingmenn og ráðherrar nýta þennan mikilvæga lið, óundirbúnar fyrirspurnir, til að reyna að upplýsa mál og við þingmenn sem spyrjum ráðherra bindum vonir við að fá svör, það sé ekki bara humm og ha og svarað með einhverjum útúrsnúningum. Gott og vel, hér var lögð fram fyrirspurn af hálfu hv. þm. Loga Einarssonar. Það var ástæða til. Utanríkismálanefnd hefur það hlutverk umfram aðrar nefndir þingsins að vera í samráði og samvinnu og eiga samtal við utanríkisráðherra og það er umhugsunarefni þegar sagt er eitt á nefndarfundi um stefnu okkar í utanríkismálum og annað síðan í þingsal eða hlutum ekki svarað. Ef ég hef skilið hv. þm. Loga Einarsson rétt þá var hann að óska aftur eftir fundi utanríkisráðherra hjá nefndinni og ég vil eindregið styðja þá bón hans um leið og ég hvet forseta til að ítreka það við ráðherra að svara spurningum þingmanna.