152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[21:20]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á að upplýsa um að það hefur nákvæmlega ekkert gerst síðan ég kom hingað upp síðast, það hefur ekkert gerst síðan ég kom hér upp þarsíðast, það hefur ekkert gerst í þessu máli síðan Útlendingastofnun ákvað í skjóli ráðherra að gera þetta eins og þeim hentar. Mér finnst áhugaverð niðurstaða sem er kominn núna í athugun efnahags- og viðskiptanefndar varðandi þessa gjaldtöku af því að það eru sannarlega allir umsækjendur búnir að greiða 25.000 kr. fyrir þessa umsókn og fyrir vinnslu umsóknarinnar. Jafnvel þó að í því felist ekki einhver tímapressa er alveg ljóst að það þarf að afgreiða umsóknirnar og þótt þetta teljist vera skattur er þetta áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að formaður undirnefndar, hv. þm. Birgir Þórarinsson, hefur ítrekað nefnt að það sé ekkert endilega skylda Alþingis að vera að afgreiða þessar umsóknir yfir höfuð. Ég vil upplýsa hæstv. forseta og þingið allt um það að við höfum fengið þær upplýsingar frá Útlendingastofnun að frá 2. október til 1. mars hafi borist 59 umsóknir. Hvenær við munum fá þær hef ég ekki hugmynd um, hvenær við munum afgreiða þær eða hvort hef hvorki ég hugmynd um né aðrir. Ég vil vekja athygli á því að ég er persónulega (Forseti hringir.) farin að fá sendar til mín umsóknir um ríkisborgararétt. Í svo miklum vafa eru almennir borgarar um það hvernig þetta ferli stendur.