154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

almennar íbúðir og húsnæðismál.

583. mál
[10:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við í Flokki fólksins styðjum heils hugar þessa aðgerð. Það var eiginlega sláandi að heyra það á velferðarnefndarfundi hvernig ástandið er hjá sumum fjölskyldum. Sumar fjölskyldur þurfa húsnæði núna fyrir jólin og eru bara í algerri neyð og ég tala nú ekki um það sem er lagt á sumar fjölskyldur, bæði eftir hörmungarnar í Grindavík og líka það að fólk er í sumarbústöðum eða þarf að fara langar leiðir, fyrst með börnin í skóla, leikskóla og síðan í vinnu. Það eru auðvitað svakaleg ferðalög þar á bak við og ef það er hægt á einhvern hátt að minnka álagið og koma fólki í skjól þá eigum við að gera allt sem við getum. Ég er mjög feginn að við erum að gera þetta, Bjarg er að taka þetta að sér. Þeir eru búnir að sýna að þeir eru að berjast fyrir þá sem eru á lægstu laununum og eru að tryggja að fólk þurfi ekki að borga meira en 25% af tekjum sínum fyrir húsnæði, sem við ættum auðvitað að hafa. Við ættum að hugsa núna aðeins um það eftir áramótin hvort við þurfum ekki líka að hjálpa fleirum vegna þess að ég er að heyra að fólk búi í hjólhýsum. Það gengur ekki upp. Við erum með einstaklinga, ekki marga en einhverja, sem þurfa líka hjálp og sem betur fer verður tekið á þessum málum í velferðarnefnd eftir áramót. Ég held að við ættum þá líka að hugsa um hvernig við getum hjálpað öllum sem eru í svona neyð. Þetta er hugsað til Grindavíkur og bara frábært að þetta sé að komast í gegn og ég styð það heils hugar.