141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:10]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður tæpti á mörgum athyglisverðum sjónarmiðum sem væri efni í langt mál og ágætisumræðu. Ég vil fyrst nefna að það er alveg rétt sem mátti skilja á þingmanninum að það er mjög óheppilegt að alltaf sé verið að stilla fólki upp í einhver lið á jöðrum þessa máls því að ég held að flestir telji sig til hinnar hófsömu miðju í nýtingu og náttúruverndarmálum. Rammaáætlun kemur sem mjög öflugt tæki inn í þá umræðu, eins og ég sagði fyrr, til að draga úr átökum og auka samkomulagið og sáttina um einstaka virkjunarkosti þó að það verði aldrei svo að ekki verði pólitísk átök um náttúruvernd eða virkjunarmál. Við förum aldrei með pólitíkina alveg út úr þessu, það er ekki hægt.

Það má nefna ýmislegt sem við mundum vilja sjá öðruvísi, einstakir þingmenn, út frá okkar prívatskoðunum og pólitísku viðhorfi. Í öllum aðalatriðum held ég að þetta sé ásættanlegt þó að ég geti alveg raðað nokkrum kostum öðruvísi. Af hverju er til dæmis Hólmsárvirkjun ekki sett í nýtingu? Ég skil vel að Þjórsárvirkjanirnar séu settar í bið út frá varúðarsjónarmiðum eins og kemur fram í nefndarálitinu, „að Urriðafossvirkjun hefur áhrif á stærstu laxveiðistofna landsins með um 10% af náttúrulegri laxveiði á Íslandi. Um 95% aflans er veiddur í net.“ Þetta er einfaldlega nokkuð sem þarf að skoða betur. Það er óvarfærið að fara af stað án þess að búið sé að rannsaka þetta betur. Svona má lengi áfram telja.

Tekur ekki hv. þingmaður undir það að við þurfum að sameinast, eins og Alþingi gerði samhljóða 2011, um að halda áfram að byggja upp öflugt tæki, öfluga aðferð við að ráða úrslitum einstakra kosta þó svo að við séum ekki sammála þeim í öllum atriðum því að það verðum við aldrei, öll 63, frekar en aðrir landsmenn um einstaka kosti þó að við myndum meginsátt í málinu?