141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir bendir á, nú erum við nýlega farin að ræða um framtíðarskipulag verkefnisstjórnarinnar og verkefni hennar tengd rammaáætlun. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við ræðum það til hlítar svo að við skiljum hlutina á sama veg öll sem tökum afstöðu til þessa máls. Hér hafa komið fram mjög áleitnar spurningar er snerta kostnaðinn við þetta, hvort tiltekin verkefni eigi heima hjá verkefnisstjórninni og hvort þau verði einfaldlega of umfangsmikil.

Maður veltir því líka fyrir sér hvers vegna verkefnisstjórnin eigi að rannsaka sérstaklega neðri hluta Þjórsár. Af hverju er það ekki á höndum framkvæmdaraðila eins og Landsvirkjunar? Af hverju er verið að brjóta þá hefði sem þar gildir? Það er eðlilegt að við spyrjum hverjir eigi að greiða þann reikning.

Eins og ég hef sagt áður er ýmislegt sem þarf að fara betur yfir. Mér gefst því miður ekki tími til að fara yfir fleiri þætti í þessu stutta andsvari mínu. Það eru nokkrir aðrir þættir í þessu mikilvæga máli sem ég mundi gjarnan vilja koma inn á og velta upp í umræðunni og fá kannski svör, ef ekki frá hæstv. ráðherra þá frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur sem hefur oft svörin hér á reiðum höndum enda þekkir hún málið mjög vel. Mér finnst í ljósi mikilvægis málsins eðlilegt að halda áfram að ræða það vegna þess að mörgum spurningum er ósvarað. Við skulum leita leiða til þess að skýra málið betur. Ég bið því frú forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.