152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:25]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Það er ýmislegt gott í þessari tillögu til þingsályktunar en það eru líka aðrir hlutir sem ég sakna. Geðheilsa aldraðra — jú, það er talað um einangrun og það er talað um einmanaleika, en vandamálið er svo miklu stærra en það að það dugi bara ein málsgrein um þann vanda og hann er smættaður, finnst mér, niður í eitthvað pínulítið sem er ekki mjög stórt vandamál. Þetta kemur mér alla vega þannig fyrir sjónir. Ég veit ekki hvernig þetta er hugsað en þannig kemur þetta mér fyrir sjónir. Mig langar að grípa aðeins niður í grein úr Læknablaðinu. Ég er ekki með nýrri tölur en þarna stendur sem sagt að árið 2018 hafi u.þ.b. 55% íbúa hjúkrunarheimila verið með kvíða- eða þunglyndisgreiningu. Neysla geðlyfja var 72,5% innan hjúkrunarheimila. Þunglyndislyf voru algengust, neysla geðrofslyfja var 26%, 18% fengu geðlyf að staðaldri án greiningar. Án greiningar. Við erum ekki einu sinni með greiningar fólks og starfsfólkið veit kannski ekki hvernig það á að bregðast við eða hvað það á að gera vegna þess að það skortir úrræði, það skortir virkni, það skortir svo ótrúlega marga hluti á hjúkrunarheimilum landsins. Þetta er svo vanfjármagnað að 18% íbúanna fengu geðlyf að staðaldri án greiningar árið 2018. Ég er ekki með nýrri tölur, ég veit ekki hvort þetta sé breytt en einhvern veginn grunar mig að það sé ekki þannig. Það voru 22,3% sem tóku geðrofslyf í öðrum tilfellum en mælt var með. Nú veit ég ekki hversu mikla þekkingu þingheimur hefur á geðrofslyfjum, en það eru mjög sterk lyf og geta haft ýmiss konar aukaáhrif á virkni líkamans á svo margan hátt. Það voru tæpir 50.000 einstaklingar sem tóku þátt í þessari rannsókn. Það sem er líka vert að hugsa um er að aldursbreytingar hafa áhrif á verkun geðlyfja og rannsóknir hafa ekki staðfest jákvæða langtímaverkun fyrir aldraða. Aldraðir eru viðkvæmir fyrir skaðlegum aukaverkunum lyfjanna sem aukast með fjöllyfjanotkun. Geðlyfjanotkun þarf að vera byggð á nákvæmri geðgreiningu. Það er bara þannig. En það er ekki talað um geðlyfjanotkun eða lyfjanotkun neins staðar í þessu plaggi. Hvernig á að takast á við þetta? Hvernig á að gera þetta þannig að þetta sé gert rétt og gert með hag fólksins fyrir brjósti? Það að gefa fólki sem er ekki með geðgreiningar geðlyf þarf auðvitað alltaf að vera mjög vel ígrundað. Það þarf að taka tillit til allra aukaverkana og eins og segir hér þá sýna rannsóknir ekki að þetta hafi jákvæða langtímaverkun á fólk. Hvað er að gerast inni á hjúkrunarheimilum landsins? Vitum við það? Þetta er það eina sem ég hef og ég væri til í miklu ítarlegri upplýsingar. Ég held að það þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt, sérstaklega hvað varðar geðheilsu og lyfjanotkun hjá þessum hóp.

Ég myndi örugglega standa hér í allan dag ef ég ætlaði að tala um allar aukaverkanir geðlyfja, sérstaklega geðrofslyfja, en það verður kannski bara að bíða betri tíma. Það er nauðsynlegt, eins og í svo mörgum öðrum málaflokkum sem snúa að heilsu fólks, að þróa úrræði, mismunandi úrræði, og hugsa hlutina öðruvísi. Það þarf að bylta því hvernig við hugsum um fólkið okkar. Hvað vitum við? Hvaða áhrif hefur það t.d. að fólk sé einangrað? Jú, vísindin sýna okkur og rannsóknir hafa sýnt að það getur kannski stytt líf fólks um fjögur til fimm ár. Við vitum þetta. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á það að aldraðir einstaklingar og aðrir í samfélaginu séu ekki einangraðir og séu ekki einmana. Mér finnst það göfugt markmið að einblína á einmanaleika og reyna að draga úr honum hjá þessum hópi. En vandamálið er bara svo miklu stærra en það. Einmanaleiki hljómar svona frekar krúttlega, en nei, þetta er ekki krúttlegt, þetta er mjög alvarlegt. Það er bara ótrúlega mikið af geðlyfjanotkun og lyfjanotkun sem er ekki einu sinni hægt að rökstyðja með greiningum. Hvernig getur það bara verið í lagi?

Tölum aðeins um sjálfsvíg. Árin 2010–2020 voru 105 einstaklingar 60 ára og eldri sem tóku sitt eigið líf. Þarna eru 105 einstaklingar, 60 ára og eldri, sem ákveða að það sé betra að enda sína jarðvist. Það að ekki sé tekin sérstaklega til greina geðheilsa, geðlyfjanotkun og lyfjanotkun aldraðra í þessu finnst mér vera vanhugsað. Ég veit ekki hvort ekki eru til upplýsingar um þennan vanda eða hvað það er, en ég tel að lyfta þurfi grettistaki í þeim málaflokki vegna þess að þetta er greinilega eitthvað sem menn ráða ekki við á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum landsins. Ég held að starfsfólk þar sé að gera sitt besta í ómögulegum aðstæðum og lyfjanotkun þar sé einhvers konar örþrifaráð í samfélagi sem býður ekki upp á úrræði við hæfi. Það þarf að þróa úrræði. Það þarf að skapa samfélag og þannig umhverfi að aldraðir einstaklingar vilji vera partur af því og við bjóðum þau velkomin til að vera partur af okkar samfélagi. Ekki: Ef þú ert orðinn þetta gamall þá skaltu vera á hjúkrunarheimili og gjöra svo vel að taka geðlyfin þín. Nei, það er alla vega ekki samfélag sem ég ætla að búa í og ég hvet alla til að skoða þetta með þessum augum og kynna sér hvaða áhrif það hefur á fólk að vera á miklum geðlyfjum og kannski mörgum á sama tíma. Ég vildi að ég hefði upplýsingar um það hversu mörgum geðlyfjum hver og einn væri á. Ég geri mér grein fyrir því að stundum þurfa einstaklingar að vera á lyfjum. En eigum við ekki frekar að einblína á að fjárfesta í virkni, fjárfesta í tilgangi, fjárfesta í einhverju og spyrja: Hvað langar mig að gera? Hverjar eru draumar mínir og þrár? Þegar þú ert orðinn aldraður einstaklingur þá áttu þér enn drauma og þrár og langar kannski að gera eitthvað og vilt hafa tækifæri til þess. Verum gagnrýnin á lyfjanotkun eldra fólks, verum gagnrýnin vegna þess að einstaklingarnir vilja hafa hlutverk og vilja hafa tækifæri af alls konar toga eins og hefur komið fram hér í dag. Ég hvet alla til þess að hafa þetta í huga þegar skoðað er hvernig við getum sinnt þessum hópi betur.