154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

almennar íbúðir og húsnæðismál.

583. mál
[10:02]
Horfa

Frsm. velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir og lögum um húsnæðismál (almennar íbúðir vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ).

Velferðarnefnd fjallaði um frumvarpið sem meiri hluti nefndarinnar lagði fram og fékk á sinn fund gesti frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Rauða krossinum á Íslandi. Þá hefur Samband íslenskra sveitarfélaga lýst því yfir að það styðji að frumvarpið nái fram að ganga.

Markmið frumvarpsins er að mæta húsnæðisþörf Grindvíkinga sem rýma þurftu heimili sín vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Nefndin áréttar mikilvægi þess að frumvarpið nái fram að ganga til að tryggja Grindvíkingum húsnæði til leigu á meðan á almannavarnaástandi og rýmingu stendur og lengur ef þörf krefur.

Nefndin leggur til að það verði samþykkt óbreytt. Undir það rita hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Óli Björn Kárason, Jóhann Páll Jóhannsson og Gísli Rafn Ólafsson. Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Mig langar að byrja á því að þakka nefndinni fyrir af því að það er ekki sjálfsagt þegar slík beiðni kemur inn til nefndar að hún taki að sér mál og flytji það, ekki síst í svona miklum flýti eins og hér er um að ræða. En málefnið er brýnt. Við fengum um það fregnir að það er slæm staða hjá mörgu fólki sem býr ekki við góðan kost og ef við getum leyst úr því nú fyrir jól hjá mörgum þá ber okkur auðvitað skylda til þess að reyna að verða við því. Það er það sem kannski hér er undir fyrst og fremst. Lagabreytingin sem slík nær fyrst og fremst til þessa hóps og tiltekins fjölda íbúða, bæði í gegnum Bjarg eða aðra sem myndu vilja koma að þessu máli, en fyrst og fremst er verið að leggja út frá því að Bjarg fjárfesti í allt að 60 íbúðum. Þörfin er líklega talsvert meiri heldur en það og þrátt fyrir að Bríet komi líka með íbúðir inn á markaðinn er ljóst, miðað við þær upplýsingar sem við fengum síðast í gær, að það er þörf á fleiri íbúðum og í janúar þegar þarf kannski að losa sumarhús og annað slíkt gæti þörfin orðið enn þá meiri en hún er akkúrat í dag.

Þetta snýst um að sveitarfélögin þurfi ekki að leggja fram í augnablikinu 12% í stofnframlög heldur fyrst og fremst ríkissjóður í gegnum félagið Bjarg, það er kannski stóri liðurinn í þessu. Ég held að eftir umræðuna sem hefur átt sér stað í nefndinni og að það sé hægt að gera þetta með svona skjótum hætti þá ýtir það við manni að þetta verði gert. Sveitarfélögin hafa þrjú ár til þess að koma inn í þetta verkefni, kjósi þau að vera með þann fjölda íbúða í sínu sveitarfélagi þar sem verður keypt, og ég trúi því nú að það verði viðhaft gott samtal við þau sveitarfélög. Ég held að við séum að gera hér afskaplega góða hluti og ekki síst, eins og ég segi, eftir að við áttum fund í gærkvöldi með fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Rauða krossins, þá sannfærðist ég enn frekar um að þetta er mál sem við verðum að afgreiða hér fyrir jólin og færa a.m.k. fólki þau tíðindi að staðið verði áfram við bakið á þeim.

Svo vil ég geta þess svona í framhjáhlaupi, af því að við erum auðvitað búin að vera að samþykkja hér ýmis úrræði á Alþingi og í gegnum velferðarnefnd, að við í nefndinni munum, eftir áramótin þegar þinghald hefst að nýju, kalla eftir því að fá upplýsingar um hvernig þessi úrræði sem við höfum sett hér á laggirnar hafa nýst en líka ætlum við að reyna horfa á það hvernig hægt er að fylgja eftir slíku áfalli sem fólk hefur orðið fyrir. Við vitum svo vel að það klárast auðvitað ekkert þótt fólk geti haldið vinnu eða fái húsnæði, það er svo margt annað sem þarf að huga að, bæði hjá börnum og fullorðnum í þessu sambandi. Við ætlum sem nefnd að fara aðeins ofan í það og fá til okkar fólk og reyna að horfa fram í tímann varðandi það hvernig við getum hjálpað til.