131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[14:14]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef menn hafa þá trú að samkeppni haldi verðlagi það niðri að það sé nánast kostnaðarverðlag sem endurspeglist í verðlagi átta menn sig væntanlega á því að ef menn ætla sér að láta innlendan gjaldmiðil, þ.e. íslensku krónuna, njóta sömu reglu yrði mjög dýrt að senda t.d. krónu til Aþenu vegna þess að þar í landi kannast menn ekki endilega við þann gjaldmiðil. Það yrði nánast bara að senda mann með hana eða senda hana þangað með pósti (Gripið fram í.) og það mundi auka kostnaðinn mjög mikið. Ég reikna ekki með því að öll lönd í Evrópusambandinu séu tilbúin til að taka við þessum greiðslum á rafrænan hátt. Ef það er gert rafrænt verður nokkuð sama hversu langt er flutt.

Af þessari ástæðu hygg ég að menn hafi ekki viljað taka inn fleiri myntir. Kostnaðurinn mundi aukast svo mikið fyrir örfáar greiðslur í íslenskum krónum út í heim að gjaldið innan lands yrði að vera töluvert miklu hærra fyrir krónur á milli banka þar sem eru jafnvel í sömu götu. Þetta er ástæðan fyrir því að menn vildu ekki láta þetta gilda fyrir alla gjaldmiðla. Þá væri illt að skilja krónuna eftir.

Menn ákváðu að taka þetta lágmark sem hafði verið samþykkt í samráðsnefndinni í EFTA og láta evruna njóta þessa forgangs. Þetta mun án efa, ef menn trúa því að samkeppni haldi verði niðri, hækka verðið eilítið innan lands í flutningi á evrum milli innlendra bankastofnana. Ég geri ráð fyrir að það verði ekkert voðalega mikið vegna þess að magn þessara færslna er ekki mikið og ég held að bankarnir noti þetta sem ákveðna viðskiptavild fyrir viðskiptavini sína.