133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[14:20]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að þakka hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur fyrir orð hennar hér. Það er augljóst að hv. þingmaður er sammála okkur sem höfum verið að tjá okkur um ummæli virðulegs forseta. Það er ekki hægt að skilja ummæli hv. þingmanns öðruvísi þegar hún segir að það verði engar breytingar gerðar nema í sátt við alla. Hárrétt, en eins og hv. þingmaður benti á sagði virðulegur forseti í fyrstu ræðu sinni að það væri tilgangur hennar að breyta þingsköpum. Við vitum ekki betur en að það sé ferli í gangi að sinna þeim breytingum og þar sé reynt að ná sátt við alla. Þess vegna eru ummæli forseta nú í hádeginu enn verri tíðindi vegna þess að það er hlutverk forseta að ná sátt um mál en ekki að tjá skoðanir sínar í bútum á einstaka þáttum málsins, ef það er í raun og veru áhugi fyrir því hjá virðulegum forseta að ná sátt um málið. Því miður er ekki hægt að skilja ummæli eins og þessi öðruvísi en svo en að stefnt sé á það að ná ekki sátt um málið. Vegna þess að þá hefði virðulegur forseti væntanlega sagt að þetta væri hluti af því sem rætt væri um en á móti þyrfti auðvitað ýmislegt annað að koma til að tryggja stjórnarandstöðunni stöðu sína í þinginu. Þetta er lykilatriði. Ég vil því enn á ný þakka hv. þingmanni fyrir ummælin sem eru algjörlega í anda þess sem við höfum verið að segja hér.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að vissulega er oft unnið mjög gott starf í nefndum. Við höfum talað um að að stórum hluta hafi t.d. vinnan í menntamálanefnd við frumvarpið um Ríkisútvarpið verið til sóma, enda ýmsar breytingar á því frumvarpi verið gerðar og ég held að ég geti fullyrt allar til bóta. Það sýnir auðvitað hversu illa frumvarpið var unnið í upphafi. En, virðulegi forseti, málið er auðvitað þannig að breytingarnar sem gerðar hafa verið hafa ætíð verið bornar undir hæstv. ráðherra og ráðherra og framkvæmdarvaldið hafa alltaf þurft að samþykkja slíkt. Þetta sjáum við því miður allt of oft í nefndum. Dæmið sem við sáum skýrast var auðvitað í lok nefndarstarfanna þegar bæði formaður og varaformaður menntamálanefndar létu þau ummæli falla hvernig staðið var að kynningu á ESA- gögnunum. Þá hefðu hv. þingmenn auðvitað átt að segja við framkvæmdarvaldið, ef þeir hefðu haft kjarkinn og duginn: Hingað og ekki lengra. Nú gefum við okkur tíma til að fara yfir gögnin en látum ekki duga að skima aðeins yfir bunkann og segja að hér sé ekkert sem um þurfi að fjalla. Og láta þar með framkvæmdarvaldið ákveða hvernig við högum nefndarstörfum í þinginu.

Meginvandamálið er að við þurfum að tryggja sjálfstæði þingsins, löggjafarvaldsins, gagnvart framkvæmdarvaldinu. Til þess þurfum við í stjórnarandstöðunni að sjálfsögðu liðsinni kröftugra þingmanna í stjórnarliðinu.