140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

rannsókn á Icesave og einkavæðingu banka.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ágætisundirtektir við þessum fyrirspurnum mínum. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum áður lagt fram tillögu um rannsókn á Icesave-málinu og í ljósi þessara góðu undirtekta munum við að sjálfsögðu leggja tillöguna aftur fram og við treystum því að í þetta skipti nái hún fram að ganga í þinginu.

Varðandi rannsóknir á sölu ríkisbankanna á sínum tíma vitum við öll að hún hefur áður farið til skoðunar hjá ríkisendurskoðanda. Enn er talað um að það þurfi að skoða einhverja þætti málsins og við sjálfstæðismenn höfum aldrei lagst gegn því í þinginu og munum ekki leggjast gegn því í þetta sinn.

Varðandi þá stóru ákvörðun sem tekin var um að ríkið ætti ekki með eigin framlagi að endurreisa bankakerfið hef ég fyrir mitt leyti fagnað því. Ég harma hins vegar sérstaklega hversu mikil leynd og óvissa hefur umlukið allt það ferli, samningarnir hafa til dæmis aldrei legið almennilega fyrir til umfjöllunar í þinginu og meginatriðið með endurreisn bankanna (Forseti hringir.) er hvaða áhætta hafi verið í þessu fólgin fyrir þá sem áttu viðskipti við umrædda banka. Var gefið skotleyfi á skuldara íslenska bankakerfisins eða ekki? (Forseti hringir.) Allt er þetta hluti af því uppgjöri sem við þurfum að láta fara fram.