146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við erum nú að ljúka umræðu um fjármálastefnuna. Við lögðum upp með það, einhverjir þingmenn, að við sæjum áætlunina áður en við lokuðum stefnunni. Nú hefur það gerst. Áætlunin var birt á föstudag. Mér finnst, miðað við að renna yfir hana í fyrsta sinn, að það hafi verið réttmætt að leita eftir því. Hún staðfestir svo ekki verður um villst aukið aðhald. Hún staðfestir að ekki er verið að fara í þá innviðauppbyggingu sem boðuð er af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og því miður er ríkisstjórnin að herða á þeim aðhaldskröfum sem birtast í fjármálaáætluninni sem við höfum rætt mjög mikið í umfjöllun um stefnuna. Hún er í rauninni stífari en í tíð Bjarna Benediktssonar sem fjármála- og efnahagsráðherra. Verið er að beita 2% veltutengdu aðhaldi á næsta ári nema bara á heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Það er verið að tala um framhaldsskólastigið og háskólastigið og allt það sem við höfum haft áhyggjur af þegar við höfum verið að ræða þessa stefnu. Það er fjórum sinnum strangara aðhald en hefði verið samkvæmt fyrirliggjandi ríkisfjármálastefnu.

Til lækkunar kemur, samkvæmt yfirliti sem birtist á bls. 5 og 6, í dómstólakerfinu, sveitarfélögunum, byggðamálum, ferðaþjónustumálum, framhaldsskólakerfinu, háskólakerfinu og í húsnæðisstuðningi.

Ég á eftir að glugga aðeins betur í þetta til að skilja það betur. Það kemur m.a. fram að uppsöfnuð lækkun á útgjaldavexti ríkissjóðs muni nema um 29 milljörðum til og með árinu 2022 og þá verði uppsafnað aðhald um 90 milljarðar og samneyslan muni dragast saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Allt þetta höfum við verið að ræða við gerð stefnunnar. Það kemur líka fram á bls. 54 í fjármálaáætluninni, undir Launa- og verðlagsforsendur og forsendur um hagrænar breytingar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga eru áætlaðar í samræmi við meðalprósentuhækkanir launa á vinnumarkaði þar sem gert er ráð fyrir að þær verði umfram verðbólgu á tímabilinu. Miðað er við að hækkun bóta verði á bilinu 3,1%–4,8%.“

Þetta þýðir að þeir sem þurfa að vera á bótum eru langt undir hækkun lágmarkslauna. Það getur ekki þýtt annað en að staða lífeyrisþega versni.

Þetta hlýtur að kalla á að við veltum fyrir okkur þeirri stefnu sem við erum að fjalla um. Hér er verið að loka okkur inni með útgjaldaþaki og tilteknum hraða í niðurgreiðslu skulda í staðinn fyrir að hafa ekki þetta útgjaldaþak í það minnsta og svo er skuldaramminn gerður allt of stífur. Hann fer niður fyrir 30% sem kveðið er á um í 7. gr. laga um opinber fjármál og engin ástæða til að gera það. Sérstaklega ekki þegar ákallið eftir uppbyggingu um allt land er mjög aðkallandi, hvort sem við erum að ræða um heilbrigðismálin, öldrunarmálin, skólakerfið eða vegakerfið. Það er alger háðung að horfa á hvaða útreið vegakerfið fær í fjármálaáætluninni.

Eins og ég sagði fyrr í dag vona ég svo sannarlega að fjölmiðlar fari aðeins að horfa á þessa áætlun og láti ekki tölur blekkja sig.

Ég ætla að gagnrýna það þótt það sé ekki til umfjöllunar hér en það sama á við og verið hefur að við höfum ekki árið 2017 til viðmiðunar í töflum sem hér birtast. Við óskuðum eftir því síðast og fengum ekki í gegn núna heldur.

Stefnan er að loka okkur inni í þessu mikla aðhaldi sem ég held að sé ekki gott. Það er enn verið að lækka skatta. Það er boðað áfram og aftur í staðinn fyrir að búa í haginn fyrir erfiða tíma. Ég get því miður ekki annað en haft áhyggjur af því að ég er ekki viss um að þingmenn meiri hlutans átti sig allir á stöðunni, átti sig beinlínis á hvað þeir eru væntanlega, flestir, að fara að samþykkja, geri ég ráð fyrir, því þeir þurfa jú allir að samþykkja til að þetta gangi eftir. Því að nú þegar hefur fjármála- og efnahagsráðuneyti gert okkur grein fyrir áætlaðri 11 milljarða kr. umframkeyrslu á þessu ári. Það er komið fram nú þegar og við erum bara rétt komin í apríl. Sem þýðir að hér er vanfjármagnað þó að talað sé um í áætlun, að það sé á einhverju leyti byggt á núverandi stöðu með viðbót við það sem gert var í fjáraukalögum. Það er alveg ljóst í mínum huga að þessi áætlun (Forseti hringir.) nær engan veginn að standa undir þeim gífuryrðum sem þessir flokkar viðhöfðu hér í upphafi kosninga. Stefnan er það sem rammar þetta inn.