148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

hlutabréfaeign LSR í fyrirtækjum á markaði.

528. mál
[16:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er snert á mjög stóru og mikilvægu máli og mig langar að byrja á að geta þess að um mitt síðasta ár átti ég sem forsætisráðherra frumkvæði að því að ráðist var í gerð skýrslu um hlutverk lífeyrissjóða í atvinnulífinu. Sú skýrsla kom út í janúarmánuði og þar er alveg stórfróðlegt efni um svona umsvif lífeyrissjóðanna, þær miklu breytingar sem hafa orðið á undanförnum árum, t.d. um það að lífeyrissjóðirnir fóru með um 17% af hlutabréfum á Íslandi árið 2010, en af þeim skráðu bréfum eru lífeyrissjóðirnir komnir samkvæmt skýrslunni árið 2015 þá þegar upp í 50%. Þá er ekki tekið tillit til óbeinnar eignar sem getur verið í gegnum verðbréfasjóði.

Það er því alveg ljóst að við erum að horfa á töluvert mikið breytt landslag frá því sem áður var, þar sem lífeyrissjóðirnir lágu þarna svona í kringum 20% og fara síðan í dag með u.þ.b. helming. Þetta kallar á alls konar spurningar, meðal annars af því tagi sem hv. þingmaður ber upp hér, um það hvernig lífeyrissjóðirnir hyggjast beita sér í ljósi þess að þeir eru orðnir ráðandi afl í íslensku atvinnulífi og hvernig gætt er að því að þeir fari vel með þá stöðu, hvað þeir hafa sjálfir gert að eigin frumkvæði, hvað stjórnvöld ættu mögulega að gera með lagabreytingum. Við þessum spurningum og mörgum öðrum er reynt að bregðast í skýrslunni sem ég vísaði til og kom út núna í janúar.

Ég ætla aðeins að byrja á því, áður en ég fer inn í þær tillögur sem starfshópurinn kom með, að víkja stuttlega að þeim spurningum sem eru bornar upp. Það er þá einkum verið að horfa á Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Nú er sá vandi þegar borið er upp við fjármálaráðherrann að afla upplýsinga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins að hann er auðvitað að lögum einkaréttaraðili, heyrir ekki stjórnsýslulega undir ráðuneytið, en mér finnst samt sjálfsagt að gera það sem við getum til að bregðast við spurningum.

Fyrst varðandi það hvort að við höfum einhvern veginn í ráðuneytinu beitt okkur fyrir eigendastefnu vegna hlutabréfaeignar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þá vísa ég til þess að hann er einkaréttaraðili, en sjóðurinn hefur sett sér hluthafastefnu og hún var samþykkt í febrúar á síðasta ári og almennt hafa lífeyrissjóðir sett sér slíka hluthafastefnu eða eigendastefnu þar sem m.a. kemur fram hvaða kröfur sjóðirnir gera um stjórnarhætti, umhverfismál og siðferði í þeim fyrirtækjum sem þeir eiga hluti í. Þar er þá einnig gjarnan að finna útlistun á því með hvaða aðgerðum sjóður sinnir eigendaskyldum sínum og hvernig fjárfestingum er fylgt eftir og geta aðgerðir þessar tengst stjórnarsetu, atkvæðagreiðslum og tillögum á hluthafafundum fyrirtækja.

Ég get ekki svarað því nákvæmlega hvernig Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur beitt sér í einstökum fyrirtækjum, en það er svona álitamál hvort þingmaðurinn myndi vilja að við, þrátt fyrir að sjóðurinn heyri ekki undir okkur stjórnsýslulega í fjármálaráðuneytinu, myndum kalla eftir svörum við slíkum spurningum. Þingið gæti svo sem líka gert það, viðeigandi þingnefnd og sjóðurinn myndi eflaust glaður svara því fyrir sitt leyti og gæti gert það beint til þingsins án milligöngu ráðuneytisins í sjálfu sér, en almennt sýnist mér að það sé, fari fram mat í hverju tilviki hvernig menn muni haga sér og beita sér en allt innan þeirrar hluthafastefnu sem LSR hefur þegar samþykkt.

Þannig hef ég ekki og í ráðuneytinu upplýsingar nákvæmlega um hvernig Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur beitt sér á aðalfundum eða hluthafafundum. Og varðandi launin get ég bara tekið undir það sem hv. þingmaður segir að ástæða er til að fara sérstaklega varlega þar og lífeyrissjóðirnir geta ekki skotið sér undan ábyrgð þegar þeir eru orðnir þetta mikla afl sem ég var að vísa til áðan á því að þar séu menn ekki að ganga þannig fram að það valdi óróa á vinnumarkaði. Það eru bara hárréttar ábendingar sem hv. þingmaður kemur fram með um þau atriði.

Ég ætla síðan á eftir að fara aðeins nánar yfir það hvaða tillögur koma fram hjá starfshópnum sem gætu orðið hér til úrbóta.