151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. ÍVN (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Hann er manna vísastur í þinginu um þessi efni. Það er þýðingarmikið fyrir okkur að komast inn í geislann eða jafnvel geislana. Það væri ákjósanlegt ef við gætum nýtt okkur kosti hvors tveggja. Ég skynja að það er mikill áhugi á því að koma að þessu samstarfi. Það er rekið á vegum ESB og Evrópsku geimferðastofnunarinnar og eiginlega skrýtið að við skulum ekki vera komin lengra í þessu. En eins og hv. þingmaður kom inn á eru Færeyingar í giska góðum málum hvað það varðar en við erum að mestu leyti úti í kuldanum, ekki þó kannski alveg, en þetta er ekki tryggt gagnvart okkur Íslendingum og gæti gjörbreytt aðstæðum. Ég tala nú ekki um eins og hv. þingmaður nefndi líka, þetta yrði gjörbylting fyrir Grænland og það viðkemur þá flugsamgöngum okkar við Grænland.

En svo er spurningin þessi: Vegna hvers erum við ekki komin lengra? Það kann að vera af fjárhagslegum ástæðum. Þó held ég að það sé ekki yfir óyfirstíganlegt því að við vitum að ESB hefur verið að gera ýmiss konar samkomulag við austrænu löndin, baltnesku löndin t.d., sambandið kostar þetta kerfi að verulegu leyti gegn því að viðkomandi lönd vinni að ýmsum umbótamálum innan lands varðandi innviði sína.