140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

staða heimilanna.

[10:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu orð sem hæstv. forsætisráðherra lét falla um að bíða eftir að dómsmál kláraðist er reynsla okkar af þessari ríkisstjórn þegar kemur að uppkvaðningu dóms sú að ekki er hirt mikið um hvað kemur út úr því, hvort sem það er forsætisráðherra sjálfur eða hæstv. umhverfisráðherra.

Mig langar aðeins að koma inn á grein sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskipta-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og væntanlega verðandi iðnaðarráðherra, skrifuðu í Fréttablaðið í gær. Greinin heitir „Betra samfélag“. Þegar ég las hana hugsaði ég með mér: Bíddu nú við, um hvað er verið að ræða hér? Mér datt helst í hug keisarinn þegar hann stóð fyrir framan spegilinn án klæða og dáðist að fötum sínum, að þarna væri fólk að reyna að blekkja sjálft sig og blekkja aðra með því að tala um betra samfélag. Það labbar svo um götuna án klæða og allir nema þeir sem ganga um götuna sjá að það er engin innstæða fyrir því sem hér er verið að ræða um.

Frú forseti. Það er annað sem vekur athygli í þessari grein, það að ekki eitt orð er um heimilin í landinu í henni. Það er ekki minnst á íslensk heimili, vanda þeirra eða neina þeirra frábæru lausna sem ríkisstjórnin hefur státað sig af. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, í ljósi þess að það er ekki minnst á heimilin í þessari grein sem ber yfirskriftina „Betra samfélag“: Er hæstv. forsætisráðherra búinn að gefast upp á því að koma heimilunum til hjálpar með einhverju móti? Ef svo er ekki, hvað er þá í farveginum hjá hæstv. forsætisráðherra til að gera þetta svokallaða betra samfélag þá enn þá betra eða í það minnsta skárra eða í það minnsta pínulítið betra fyrir íslensk heimili sem hæstv. forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna sáu ekki ástæðu til að nefna í greininni sinni þar sem fjallað er um hið svokallaða betra samfélag sem er eins og sagan um keisarann? (Gripið fram í.)