150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að taka þessa umræðu hér í þinginu. Vissulega er þetta ekki algerlega ný hugmynd en við höfum svo sem aldrei tekið hana til djúprar athugunar. Hér virðist útgangspunkturinn vera sá að útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar væri ekki sérlega dýr aðgerð en ávinningurinn yrði mikill, sérstaklega fyrir ungt fólk og námsmenn. Og já, hv. þingmaður nefnir 10 milljarða. Okkar úttekt á þessu sýnir að í fyrra, árið 2019, var ónýttur persónuafsláttur við álagningu ársins 11,2 milljarðar sem gefur mynd af áhrifum þessara hugmynda. Að mínu áliti eru þetta verulegar fjárhæðir. Því til viðbótar verður að teljast afar líklegt að þessi breyting myndi hafa tiltekna hvata í för með sér sem gætu orðið til þess að auka enn frekar fjárhagslegu áhrifin. Það kemur einnig fram í greiningu ráðuneytisins að af þessum 11,2 milljörðum eru það ríflega 3 milljarðar sem nýtast ekki hjá 16 og 17 ára einstaklingum og alls um 5 milljarðar hjá framteljendum sem eru undir tvítugu.

Vegna þess að hér er námið nefnt til sögunnar þá vil ég láta þess getið að það liggur fyrir þinginu frumvarp til breytinga á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem felur í sér töluvert miklar breytingar á stuðningi stjórnvalda við námsmenn sem munu hafa veruleg áhrif á kjör námsmanna til hins betra. Þar er m.a. verið að leggja til að nýtt námslánakerfi feli í sér möguleika á niðurfellingu á 30% af höfuðstóli námslána að námi loknu. Við sjáum hvernig framvinda þess máls verður en sú hugmyndafræði hefur fengið aukinn stuðning á undanförnum árum.

Það er einnig ljóst að við erum í miðju verki við að vinna úr ýmsum hugmyndum sem að öðru leyti er beint sérstaklega að ungu fólki. Þar má nefna fjölþættan húsnæðisstuðning, svo sem stuðning við fyrstu kaup, auk þess sem áhrif skattkerfisbreytinganna sem tóku gildi núna um áramótin gagnast væntanlega ungu fólki sem jafnframt er fremur tekjulágt, enda eru þær aðgerðir sérstaklega sniðnar að þeim hópi. Þar var byggt m.a. á úttekt sérstaks sérfræðihóps sem taldi ekki gagnlegt að fara í útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti, sérstaklega vegna þess að það myndi leiða til svo hárra jaðarskatta og þeir jaðarskattar yrðu þá sérlega háir á fólk með lágar tekjur. Þetta myndi með öðrum orðum hafa mjög neikvæða hvata á vilja fólks til vinnu.

Það má segja að þessar hugmyndir séu í ætt við hugmyndir um borgaralaun og þeir sem hafa fylgst með þeim málum í tilraun annars staðar hafa væntanlega tekið eftir því að það hafa komið fram ýmsir vankantar á slíkum hugmyndum. Ég ætla ekki að fara út í langt mál um þau atriði, bara nota það sem eftir er af mínum tíma til að segja: Ef við viljum gera ráðstafanir upp á 10, 11, 12 milljarða þá tel ég að við ættum einfaldlega að lækka skattana. Þegar við höfum búið til kerfi sem segir við þá sem geta farið að vinna að þeir geti gert það skattlaust vegna persónuafsláttarins skil ekki hvers vegna við ættum að ganga lengra en það. Persónuafsláttarfyrirkomulagið nýtist einmitt mjög vel námsmönnum og ungu fólki. Það dregur svo verulega úr árlegri skattbyrði þessa hóps vegna þess að hann getur þá nýtt sumarmánuðina til vinnu og persónuafslátturinn tryggir að heildarskattbyrði ársins verður mun minni. Ef það er eitthvað sem við þurfum á að halda á næstu árum þá er það að auka framleiðnina í landinu og það gerum við ekki með því að senda fólki tékka heim og hvetja það til þess að fara ekki að vinna. Það er akkúrat öfugt við það sem við þurfum að gera á næstu árum. Við þurfum að auka framleiðni í landinu, m.a. vegna þess að við erum hætt að fjölga okkur eins og við áður gerðum. Það dregur úr líkunum á því að hér verði viðunandi hagvöxtur á komandi árum.

Ég er ekki hrifinn af hugmyndinni. Ég tel að við gætum ráðstafað þessum fjármunum með skynsamlegri hætti og ég tel almennt að við eigum að byggja upp kerfi okkar þannig að það sé hvati til að leggja á sig og fara að vinna og skapa verðmæti.