153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

staða byggingarrannsókna og nýsköpunar.

[15:54]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Kannski aðeins fyrst um myglu- og rakaskemmdir. Það er alveg rétt að búið var að benda á að rannsóknir og tækniþróun á þessu sviði ættu kannski illa heima undir Tækniþróunarsjóði eins og hann er skilgreindur í dag. Þess vegna var einmitt Aski komið á fót, til að taka ákvörðun um að beina ákveðnum fjármunum í rannsóknir á þessu sviði af því að þær eru auðvitað í eðli sínu þannig að þær hafa í för með sér þjóðhagslegan ábata til lengri tíma og þær mæta samfélagslegum áskorunum — sem eru kannski ekki alveg sömu rök og í öðrum sjóðum. Með öllum þeim breytingum sem hefur verið farið í undir þessari ríkisstjórn hefur stuðningur við nýsköpun gjörbreyst á undanförnum árum, hvort sem litið er til heildarendurgreiðslu, rannsókna og þróunar, hvort sem það er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu, í sjóðafyrirkomulaginu eða öllu fjármögnunarstuðningsumhverfinu. Með Kríu, Lóu o.fl. hefur umhverfið verið þannig (Forseti hringir.) að nýsköpunin okkar segir: Hér er nóg fjármagn, hér er mikill stuðningur, hér geta hugmyndir orðið að veruleika.