154. löggjafarþing — 53. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[18:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvað myndi gerast ef við myndum fella þetta frumvarp? Að því var spurt hér í umræðum fyrr í dag. Ekki neitt. Það væru fundir í sameiginlegu nefndinni, málið rætt, komist að endanlegri niðurstöðu þar sem yrði tekið tillit til landfræðilegrar stöðu Íslands og mikilvægis flugs í þjóðarbúskapnum. Við erum ekki á meginlandi Evrópu. Við erum eyja í Norður-Atlantshafi sem byggir á Norður-Atlantshafsfluginu. Tengingar okkar við umheiminn byggja á Norður-Atlantshafsfluginu. Þessi aðlögun, að við eigum að vera á sama bás og Kýpur og Malta, það er bara einfaldlega ekki rétt. Spánn er búinn að semja um Kanaríeyjar sem ystu svæði. Við gætum samið um að Vestfirðir yrðu ystu svæði eða Grímsey. Við erum á útmörkum Evrópu og það á að taka tillit til okkar, taka tillit til eyju í miðju Norður-Atlantshafi, hvort sem það eru flugsamgöngur, orkupakkar eða annað. Það verður að gera. Þessir 130 fundir út af þessu máli eru ekki nægjanlegir. Núna verður farið í fundaherferð fyrir (Forseti hringir.) árið 2027. Ég ætla rétt að vona að Evrópusambandið fatti að við erum eyja í (Forseti hringir.) miðju Norður-Atlantshafi, rétt undir heimskautsbaug.