146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vátryggingasamstæður.

400. mál
[16:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vátryggingasamstæður. Með frumvarpinu er lagt til að leidd verði í íslensk lög þau ákvæði um vátryggingasamstæður sem eru í tilskipun 2009/138/EB, svokallaðri Solvency II-tilskipun. Tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn og meginhluti tilskipunarinnar var lögfestur hér á landi með lögum nr. 100/2016 sem samþykkt voru á Alþingi í september sl. ár. Meginmarkmið frumvarpsins er að vernda hagsmuni vátryggingataka og vátryggðra. Verði frumvarpið að lögum verða til staðar ítarlegar reglur um starfsumhverfi vátryggingasamstæðna. Frumvarpið hefur í för með sér að unnt verður að fá betri mynd af fjárhagsstöðu vátryggingasamstæðna þar sem megináherslan verður lögð á eftirlit með fjárhagsstöðunni.

Meginefni frumvarpsins eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er skilgreint hvenær um vátryggingasamstæðu er að ræða sem fellur undir eftirlit samkvæmt frumvarpinu.

Í öðru lagi eru ákvæði um gjaldþol vátryggingasamstæðu sem er metið fyrir samstæðuna í heild. Gjaldþolið skal meta árlega og getur verið gert með staðlaðri aðferð eða svokallaðri valkvæðri aðferð. Síðan eru ítarlegri ákvæði um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með mati á gjaldþoli vátryggingasamstæðu.

Í þriðja lagi eru ákvæði um eftirlit með samþjöppun áhættu innan vátryggingasamstæðu, viðskiptum innan samstæðunnar og stjórnkerfi hennar.

Í fjórða lagi er sérstakur kafli um eftirlit með vátryggingasamstæðum sem starfa í fleiri en einu aðildarríki. Þá skal eitt eftirlitsstjórnvald í þeim ríkjum sem samstæðan starfar í vera eftirlitsstjórnvald samstæðunnar. Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvaldið samhæfir það eftirlitsaðgerðir og hefur vald til ákvarðanatöku í vissum tilvikum. Til viðbótar mynda öll eftirlitsstjórnvöld sem hafa eftirlit með þeim vátryggingafélögum sem eru í vátryggingasamstæðunni samstarfshóp eftirlitsstjórnvalda. Samstarf eftirlitsstjórnvaldanna er mikilvægt svo samræmi sé í eftirliti og ákvörðunum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá eru ákvæði um skyldu til upplýsingaskipta milli eftirlitsstjórnvalda. Verði ágreiningur milli eftirlitsstjórnvalda er unnt að leita til Evrópsku vátrygginga- og lífeyriseftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) og/eða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eftir atvikum. Í frumvarpinu er þannig skapað lagaumhverfi fyrir starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins þegar vátryggingasamstæða starfar í fleiri ríkjum.

Í fimmta lagi eru ákvæði í frumvarpinu um að birta skuli opinberlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu vátryggingasamstæðu ásamt skýrslu um uppbyggingu hennar, stjórnkerfi og stjórnarhætti.

Í sjötta og síðasta lagi eru ákvæði um vátryggingasamstæður sem starfa einnig í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þeim tilvikum þarf að ákvarða hvort eftirlit þar sé jafngilt eftirliti í aðildarríkjum ef eftirlitsstjórnvald í því á að geta sinnt eftirliti.

Áhrif frumvarpsins á vátryggingafélög og vátryggingasamstæður hér á landi ættu ekki að verða mikil. Nú þegar starfa vátryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi og ber vátryggingafélögum í vátryggingasamstæðum að fara að þeim reglum. Öll vátryggingafélög hér á landi eru hluti af vátryggingasamstæðu, þ.e. almennu vátryggingafélögin eiga líftryggingafélag sem dótturfélag og frumvarpið er þar af leiðandi mikilvægt þótt þessar vátryggingasamstæður séu einfaldar.

Þetta frumvarp er viðbót við lagaumhverfi á vátryggingamarkaði, þ.e. lög nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, og frumvarpið byggir á sömu hugmyndafræði og þau lög. Lög um vátryggingastarfsemi gilda um hvert það vátryggingafélag sem er hluti af vátryggingasamstæðu.

Að lokum er vert að benda á að íslenska ríkinu bar að lögfesta ákvæði tilskipunar 2009/138/ESB fyrir 1. janúar 2016 og þar sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við það að tilskipunin hafi ekki verið innleidd í íslenskan rétt tel ég mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi.

Virðulegi forseti. Helstu áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, eru að styrkja lagaumhverfi á vátryggingamarkaði þar sem sköpuð verður betri lagaumgjörð fyrir starfsemi vátryggingasamstæðna hér á landi. Af frumvarpinu leiðir að hægt verður að fá betri mynd af fjárhagsgrundvelli vátryggingasamstæðu við eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Frumvarpið er þannig til þess fallið að skapa meira traust á fjármálamarkaði. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga til að styrkja lagaumgjörð og eftirlit á fjármálamarkaði hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.