148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svarar því til að það séu færri dagar á svæði A og að fjölga þurfi þeim. Það er nákvæmlega það sem þetta frumvarp er að gera, það er að fjölga dögum á svæði A. Af hverju? Af því að þar veiðist mest og þar eru flestir bátar, þeir klára kvótann fyrr. Það er verið að færa fleiri daga til þeirra þannig að þeir geti veitt meira, meiri afla þar. Nákvæmlega þetta er verið að gera í þessu frumvarpi. Það er ágætt að það upplýsist.

Herra forseti. Ég er afskaplega óánægður með margt í þessu frumvarpi, afskaplega óánægður með það. Ég óttast um hin svæðin og auðvitað það svæði þar sem mínir umbjóðendur eru, Suðurkjördæmi, að þessi kvóti klárist í júlí. Ég skora á hv. þingmann að taka það til skoðunar hvort ekki sé hægt að setja hámark, eins og fleiri þingmenn hafa nú orðað, á svæðin, þannig að hægt sé að loka fleiri svæðum ef komið er upp fyrir ákveðinn kvóta þannig að þetta gerist ekki eins og ég hef verið að nefna.