150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

betrun fanga.

24. mál
[17:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég fagna og þakka þann góða stuðning sem þetta mál fær hér. Þessi tillaga er nú lögð fram í þriðja sinn, hún var lögð fram á síðustu tveimur þingum en nær fram að ganga núna. Þetta felur í sér grundvallarbreytingu á því hvernig við nálgumst fangelsismál og vonandi hverfum frá þeirri refsistefnu sem verið hefur og horfum í stórauknum mæli til betrunarstefnu til að við virkilega stuðlum að því í dómum almennt að við séum að endurhæfa og bæta líf fanga eins og kostur er og skila þeim vonandi sem betri samfélagsþegnum út í samfélagið að nýju.

Mig langar líka að þakka hér að ríkisstjórnin hefur þegar stigið ákveðin skref í þessa veru sem er mjög jákvætt að sjá. Vonandi markar þetta straumhvörf í því hvernig við nálgumst refsipólitík hér á landi.