151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:59]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegur forseti. Fiðrildi eru fallegust þegar þau fá að fljúga. Þótt ég fagni allri umræðu jafnt innan þings sem utan um stjórnarskrána og hafi sama áhuga og aðrir á því að umræðan haldist á málefnalegum nótum þá get ég ekki orða bundist og minnst á sorglegt ferli þessa máls frá upphafi. Það er margt og mikið búið að koma fram í þessari umræðu efnislega og ég tek undir að það eru margar góðar breytingar, til að mynda forsetakaflinn. Hins vegar er það mín skoðun að það sé búið að mergsjúga málefnið hér á þingi á síðustu átta, níu árum. Það má vel vera að mörg okkar teljum að með þessu frumvarpi sé verið að taka stór skref í átt að breytingum í rétta átt en ég tel að menn ættu líka að leggja sig fram um það að taka púlsinn á þeim sem hafa verið í heil níu ár að berjast fyrir því — afsakið, virðulegi forseti, rúm átta ár — að farið sé eftir og sú lýðræðislega niðurstaða virt sem komist var að í þjóðaratkvæðagreiðslunni 21. október 2012.

Grundvallaratriðið er að þjóðin er stjórnarskrárgjafinn. Mjög nýlega lögðu 43.000 manns nafn sitt við áskorun til forsætisráðherra um að virða niðurstöðu þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil upplýsa þingheim um það að í þessum töluðu orðum er stór hópur fólks að skipuleggja fleiri gjörninga í kringum þetta málefni, málþing, fleiri viðburði, m.a. með það fyrir sjónum að gera þetta að næsta kosningamáli, hvort sem okkur líkar betur eða verr og hversu hrifin sem við erum af umræddu frumvarpi sem nú er til umræðu í þingsal. Þessu fólki er alvara, virðulegi forseti.

Í haust endurnýjast umboð þeirra sem með völdin fara og í raun sé ég þetta svona: Það er eins og frumvarp stjórnlagaráðs sé fallegt fiðrildi sem skreið úr púpu þess fallega ferils sem almenningur kom svo sterkt að sem stjórnarskrárgjafinn og núna sé búið að troða því upp á títuprjón og skella því á bak við gler þar sem situr núna dapurlega og lífvana hér á Alþingi.

Ég hlakka til að sjá það frumvarp sem stjórnlagaráð lagði til grundvallar nýrri stjórnarskrá gætt lífi, í heilu lagi að mestu, á næsta kjörtímabili.