151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir hið síðara andsvar og ádrepuna. Ég vil taka það fram skýrt og greinilega að ég er ekki að saka hv. þingmann um þvergirðingshátt. (BÁ: Ég gengst við því.) Hv. þingmaður er bara eins og hann er gerður og ég hugsa að hans orðspor verði fyrst og fremst það að tala gegn öllum breytingum í sambandi við okkar gömlu úreltu stjórnarskrá. Eins og ég nefndi í ræðu minni mun þessi barátta áhugafólks, almennings, þeirra sem vilja nýja stjórnarskrá og vilja nútímalegri stjórnarskrá og aukið öryggi fyrir almenning og hagsmuni þeirra, halda áfram. Því miður, eins og hv. þingmaður er vel af guði gerður á svo margan hátt, er hann að leggjast á árarnar með öflum sem er ekki eðlilegt að ráði hér lögum og lofum. (BÁ: Að hverju ertu að ýja?) Ég er að ýja að þeim völdum og þeim áhrifum sem hagsmunahópar í samfélaginu hafa í útgerð.