152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:44]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og fagna því að fá að eiga smá skoðanaskipti við hann. Auðvitað er, eins og ég kom inn á í upphafi, meginþunginn í því sem við þurfum að ræða hérna þessi: Hversu hættulegt er þetta? Hversu skaðlegt er þetta? Hversu langt eigum við að ganga í alls konar íþyngjandi reglum og reglugerðum til að vernda lýðheilsu án þess að hafa lagt nægilega mat á skaðsemi þessa efnis í samhengi við mörg önnur? Þetta er mjög áleitin spurning sem hérna kom fram. Það er örugglega miklu meira álag á heilbrigðiskerfinu, á spítölum út af sykurneyslu en nokkurn tímann þessum nikótínpúðum. Það er miklu meira álag á heilbrigðiskerfinu út af margs konar öðrum þáttum líka. Ég treysti mér alveg til að fullyrða það þótt ég sé ekki með einhverjar lærðar vísindarannsóknir hérna akkúrat fyrir framan mig í þessu. En ég er almennt talsmaður þess að við eigum að hafa meira frelsi en minna í svona málum. Og ég er almennt talsmaður þess að stilla hlutum frekar þannig upp að fólk hafi valfrelsi en sé meðvitað út af fræðslu og slíkum þáttum um skaðsemi hluta. Það gildir um áfengi, það gildir um fíkniefni, það gildir um nikótínpúða, það gildir um sykur, það gildir um koffín og margt annað, sem er kannski allt skaðlegt á sinn hátt en er þó kannski að mestu skaðlegt þeim sem eru haldnir einhverri fíkn. Þannig að ég vil frekar, svo ég svari inntaki spurningarinnar, ganga lengra í þá átt að losa um hömlur þegar kemur að öllum þessum vörum frekar en að herða enn frekar.