Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Það er margt í umhverfi okkar sem minnir okkur á mikilvægi grunninnviða og kannski er þar fyrst að nefna að það eru stríð í heiminum, það dregur athyglina að mikilvægi innviða í öryggismálum og þjóðaröryggismálum. Hér hafa verið mikil umskipti í veðrinu undanfarið sem hafa sett strik í hinar ýmsu samgöngur og annað slíkt og komið hafa upp bilanir í raforkukerfinu. Svo erum við hér líka mikið að fjalla um uppbyggingu atvinnulífsins og efnahagsmál og auðlindanýtingu okkar og hvernig við ætlum að takast á við mikilvæg verkefni í okkar samfélagi. Þar skiptir mestu máli að við náum að nýta auðlindir okkar á réttan hátt og náum að byggja upp öflugt atvinnulíf sem er kannski í mestri sókn núna í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Allt þarf þetta grunninnviði. Við nýtum raforkuna betur ef við náum að hafa betra flutningskerfi raforku og við tryggjum þá líka um leið raforkuöryggi byggðanna. Það er ekki langt síðan 30.000 manna byggð og alþjóðaflugvöllur misstu tengingu við landsnetið. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að huga að þessum málum, hvernig við fjármögnum uppbyggingu þessara innviða, hvernig við tryggjum regluverk svo þessir innviðir fái að byggjast og hvernig við hugsum um þá þegar þeir eru loksins komnir, að þeir séu þjónustaðir og þeim viðhaldið þannig að þeir virki. Allt skiptir þetta máli ef við ætlum að hafa hér öryggismál í lagi, ef við ætlum að halda áfram að byggja upp öflugt efnahagslíf og atvinnu og byggð í landinu. Við verðum að taka þetta alvarlega og við höfum séð nokkur viðvörunarljós síðustu daga.