131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Það er ástæða til að ítreka að í umsögn sinni varar ASÍ skilmerkilega við slíkri afturvirkni, það er talað um afturvirkni. Þess vegna var full ástæða til að koma því að í umræðunni, einmitt vegna þess að prófessorinn sagði að ekki væri unnt að útiloka að dómstólar telji að með því að skerða vaxtabætur afturvirkt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir, sé vegið að réttaröryggi þeirra sem fyrir skerðingunni verða og hún brjóti í bága við stjórnarskrána.

Þetta var eftir að dregið var þó úr þeirri skerðingu sem stjórnarflokkarnir ætluðu að fara í á síðasta ári.

Það er ekki sanngjarnt gagnvart fólki sem er með 5–6% vexti að beita þeim rökum að hægt sé að skerða vaxtabætur um 900 milljónir af því að raunvextir séu að lækka. Hvað með þau 60 þúsund heimili sem í engu njóta góðs af þessari vaxtalækkun, sem komið er í bakið á og ruglað öllum greiðsluáætlunum sem gerðar hafa verið? Virðulegi forseti, það er ekki sæmandi að gera þetta gagnvart þeim 60 þúsund heimilum sem (Forseti hringir.) fá núna bakreikning og skerðingu á vaxtabæturnar. (Gripið fram í.)