139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[11:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og hv. formaður allsherjarnefndar Róbert Marshall gerði grein fyrir er frumvarp þetta tæknileg afleiðing af frumvarpi sem samþykkt var í september um sameiningu ráðuneyta, eins og við þekkjum. Við sjálfstæðismenn stóðum gegn breytingunni sem ákveðin var í september en við styðjum þessar tæknilegu breytingar í ljósi þess að um áramótin taka við innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti og þá er ástæðulaust að hafa nöfn eldri ráðuneyta og eldri titla ráðherra í lögum áfram.

Ég vek hins vegar athygli á því að þetta er fjórða frumvarpið um breytingar á Stjórnarráði Íslands sem afgreitt er frá þingi frá því að núverandi ríkisstjórn tók til valda. (Gripið fram í.) Þegar hefur verið boðað að a.m.k. eitt frumvarp verði flutt þegar eftir áramótin, trúlega tvö, og verður þá sagt að ríkisstjórnin hafi verið töluvert aðgerðamikil hvað varðar (Forseti hringir.) breytingar á skipuriti Stjórnarráðsins. Færi betur ef hún væri jafnaðgerðamikil í þágu atvinnulífs og heimila í landinu. (BJJ: Heyr, heyr.)