141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að bregðast við nokkrum af þeim þáttum sem komu í stuttu andsvari hv. þingmanns vil ég hnykkja á því að rammaáætlun er eitt og hún er verkefni sem við þurfum að klára. Þjóðin er búin að eiga hana inni hjá okkur lengi. Hitt er svo annað mál að þegar á að fara að virkja eða vernda þarf að vinna þessa vinnu.

Varðandi nýtinguna þarf umhverfismat og það hefur komið fram hjá fulltrúum orkugeirans á fundum sem við hv. þingmaður höfum setið að það geta komið fram þannig skilyrði í umhverfismati að viðkomandi virkjun verður ekki lengur hagkvæm og þá er það allt önnur Ella, en með því að samþykkja rammaáætlun tökum við frá og segjum hvað við ætlum að gera. Þá er hægt að vinna eftir því.

Virðulegi forseti. Í þessu síðasta andsvari mínu vil ég hnykkja á og segja að við erum að vinna stórkostlegt plagg hvað varðar það sem við erum að setja í verndarflokk. Við erum að skila því hérna alveg kláru. Ég get tekið dæmi sem ég gerði að umtalsefni, Langasjó (Forseti hringir.) sem er á hinu fallega svæði sem sett er inn, og (Forseti hringir.) ýmsa fleiri fallega náttúrustaði.