145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka guði mínum fyrir að vera ekki þingbjallan þegar tveimur skólameisturum lýstur hér saman. Ég lít stundum á sjálfan mig sem kjarkmikinn mann en ég hef ekkert áræði til að reyna að leiðbeina þeim tyftunarsama skólameistara sem situr hér bak mér. Þess vegna ætla ég ekki að gera það. En hins vegar tel ég að það mundi greiða fyrir þingstörfum ef hæstv. forseti mundi gera uppskátt um það um hvaða leyti nætur hún hyggst slíta fundi. Sjálfur er ég alveg reiðubúinn til að vera hér áfram fram undir morgunn og tel að þessi umræða hafi, eins og fram kom hjá öðrum forseta hér fyrr í dag, Þorsteini Sæmundssyni, leitt fram margar gagnlegar staðreyndir.

Ég get verið hér og rætt þessi mál þess vegna fram undir morgun en þó með því skilyrði að hæstv. forseti hlutist til um að það ágæta túnfisksalat sem er hérna frammi verði þar áfram.