149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ég vil þó árétta að ég sagði ekki að ég gæti sjálf sett inn breytingar á stjórnarskrá heldur að ég gæti sjálf gert tillögur um þær. Að sjálfsögðu myndu þær ávallt hanga á samþykki ykkar allra hér.

Mér finnst mikilvægt að við leggjum það á okkur að eiga þetta samtal á milli ólíkra sjónarmiða, á milli ólíkra stjórnmálaflokka, um stjórnarskrárbreytingar og komum þannig með tillögur sem við teljum vænlegastar til að skapa sömuleiðis þá samstöðu hjá þjóðinni.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um málskotsrétt þjóðarinnar er það eitt af því sem við settum í forgang í okkar vinnu, að ræða hvernig honum ætti að vera háttað, þ.e. að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt lög á Alþingi. Ég hef viljað forgangsraða því ákvæði, að við skoðum það sérstaklega, en annað ákvæði sem ég tel að við ættum að gefa gaum er svokallað þjóðarfrumkvæði. (Forseti hringir.) Það hefur verið tekið upp, ekkert endilega í gegnum stjórnarskrá, í löndunum í kringum okkur og hefur orðið til þess að setja mál á dagskrá viðkomandi þjóðþinga með mjög eftirtektarverðum árangri, bara svo að maður segi það hér.