151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. En er vandinn sá, eins og hv. þingmaður lýsir því, að menn sáu allt í einu tækifæri? Hv. þingmaður talaði um pólitík í þessu. Menn sáu tækifæri til að koma sínum pólitísku skoðunum inn í stjórnarskrá landsins. Er það ekki einmitt stórhættulegt? Er það ekki það sem getur í sjálfu sér einna helst verið hættulegt lýðræðinu og hvernig við þróum samfélag okkar ef við förum að nota grunnlög landsins sem pólitískan vettvang eða til að búa til einhvers konar pólitískt stefnuplagg fyrir ákveðnar pólitískar skoðanir? Er það það sem gerðist? Er það það sem fór af stað? Var það þannig að menn sáu tækifæri til að koma á framfæri og koma inn í stjórnarskrá stefnumálum sem ekki höfðu átt upp á pallborðið árin á undan og kenndu þessu skelfilega bankahruni um hvernig fór, þ.e. að stjórnmálamennirnir sem voru á undan bæru ábyrgðina og það þyrfti að koma í veg fyrir að þeir gætu endurtekið leikinn og þess vegna þyrfti að breyta stjórnarskránni þannig að hinar pólitísku skoðanirnar kæmust inn í stjórnarskrána? Ég hef óttast að þetta sé þannig. Það voru stjórnmálamenn, virðulegur forseti, sem hófu þennan leik allan saman. Hann hófst hér. Það voru stjórnmálamenn sem ákváðu að fara í þessa vegferð og það eru að sjálfsögðu stjórnmálamennirnir sem verða þá að enda þetta rugl allt saman. Ég held því miður, herra forseti, að þrátt fyrir ágætar tilraunir hæstv. forsætisráðherra séum við ekkert endilega miklu framar í dag en við höfum verið vegna þess að enn er verið að berast á banaspjót um það hvaða pólitísku skoðanir eigi að vera í stjórnarskrá.