151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vildi ég gera athugasemdir við orðalag hv. þingmanns um að það sé fyrst og fremst auðlindaákvæðið sem hafi valdið deilum um tillögur stjórnlagaráðs og þetta ferli sem átt hefur sér stað síðasta áratuginn eða svo. Vissulega er ágreiningur um það en það er fjöldamargt annað. Það hafa í raun og veru fyrst og fremst verið stuðningsmenn tillagna stjórnlagaráðs sem hafa viljað setja auðlindaákvæðið í forgrunn þó að við sem höfum gagnrýnt tillögur stjórnlagaráðs höfum gert það á fjöldamörgum öðrum forsendum. Þess vegna hef ég í þessari umræðu í dag kannski reynt að beina sjónum að álitamálum sem ég tel að séu uppi, t.d. varðandi forsetakaflann, sem snerta m.a. valdheimildir forseta. Það væri kannski ástæða til að spyrja hv. þingmann, af því að ég veit að hann hefur velt þessu töluvert fyrir sér í sambandi við forsetakaflann eins og hann er hér settur fram, hvort hann sé nægilega skýr að mati hv. þingmanns.

Þó að ég hafi ekki haft tíma til að fara yfir öll þau atriði sem ég vildi koma að í því sambandi þá hef ég verið þeirrar skoðunar og hef látið þá skoðun í ljós að fyrst farið var út í að breyta forsetakaflanum sé niðurstaðan ekki sú sem ég vænti, þ.e. í sambandi við skýrleika. Mér hefur fundist vanta upp á skýrleikann. Hafi menn á annað borð áhyggjur af því að fólk misskilji það þegar annars vegar er sagt að forseti hafi einhverjar tilteknar valdheimildir og svo hins vegar séu þær af honum teknar með einhverjum öðrum ákvæðum þá hef ég sagt að það vandamál, hafi það verið vandamál, sé enn fyrir hendi, jafnvel þó að þetta frumvarp nái fram að ganga. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti verið sammála mér um það.