152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:53]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi komið fram, í a.m.k. einni umsögn um frumvarpið, að það að setja íþyngjandi reglur um þetta gæti einmitt unnið gegn anda laganna og það má örugglega taka undir það að einhverju leyti. Þá var nefnt hér fyrr í umræðunum að það sem verður bannað gæti farið að verða meira spennandi en það sem er leyft. Ég held að við hljótum alltaf að nálgast börn og ungmenni eins og við nálgumst hvert annað í samskiptum. Við gefum okkur að fólk sé skynsamt og gefum okkur að sá árangur sem við náðum á sínum tíma, t.d. gegn reykingum, geti líka virkað í þessu. Það var mikið fræðslu- og forvarnastarf sem skilaði þeim árangri.

Ég man eftir því að í tóbaksvarnalögum fyrir einhverjum 20 árum var einmitt svona markmið, að reyna að draga úr skaðsemi sreykinga, gott og göfugt markmið sem allir gátu sameinast um. En þá var allt í einu komin inn sú hugmynd í þá umræðu, og gott ef það varð ekki að lögum, að ekki mætti einu sinni sýna reykingar í bíómyndum, sjónvarpsþáttum eða skrifa um þær í bókum öðruvísi en minnt yrði á skaðsemi þeirra. Þeir sem voru til að mynda að búa til skáldverk, listaverk, máttu ekki búa til vonda kallinn með sígarettu í munnvikinu. Við vitum að þeir sem eru að búa til listaverk, hvort sem það eru bíómyndir, bækur, sjónvarpsþættir eða hvað það er, þurfa oft að skapa alls konar slík hughrif. Þetta er eins og vondi kallinn í bíómyndum mætti ekki blóta. Það er hægt að ganga svo langt til að ná fram góðum markmiðum og ég held því miður að það sé reyndin um margt í þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Það er kannski þess vegna sem viðbrögðin hér í salnum í dag hafa verið svolítið hörð, sérstaklega við þessu ákvæði um bragðefnin.