139. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[14:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við flutning málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna kom í ljós mikill ágreiningur á milli — hverra? Stéttarfélaganna. Það er verið að flytja málefni einstaklinga sem búa við fötlun, ákaflega viðkvæman hóp. Það var ekki hægt að flytja þau vegna þess að stéttarfélögin bitust um sálirnar sem þær eiga og það snýst um 70 millj. kr. Mér finnst það ótækt þannig að ég flyt breytingartillögu á eftir um að það sé ekki lengur skylda opinberra starfsmanna samkvæmt lögum að greiða í stéttarfélag sem þeir vilja ekki vera í.

Ég geri ráð fyrir því að þessi breyting muni valda því að mjög margir vilji greiða í sitt stéttarfélag af því að það er gott en að öðrum sem vilja standa utan við það sé gert það kleift. Þetta ákvæði brýtur mannréttindasáttmála og þrjú ákvæði stjórnarskrárinnar.