141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og eins líka hve hæstv. ráðherra var heiðarlegur í svörum sínum.

Mig langar að spyrja aðeins frekar í sambandi við Íbúðalánasjóð. Það liggur fyrir þó að farið sé í allar þær aðgerðir sem vitað er um, og búið er að kynna fyrir hv. fjárlaganefnd með þeirri skýrslu sem gerð var um þetta mál, að mat sjóðsins þrátt fyrir þessar aðgerðir allar saman er að lágmarki 6 milljarða kr. afskriftir. Þess vegna gagnrýnum við það mjög að ekki sé horfst í augu við vandann heldur rati þetta inn ríkisreikning í staðinn fyrir að vera í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að útskýra það aðeins frekar.

Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á það mikilvæga verkefni að greiða niður skuldir og losna við vaxtagreiðslur. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því? Telur hæstv. ráðherra það þá skynsamlegt, eins og gert er ráð fyrir í fjárlögunum, að selja eignir til þess að setja akkúrat inn í rekstur?

Ef við ætlum að ná einhverri samstöðu þurfum við að vera sammála um hvernig við ætlum að greiða niður skuldirnar. Við megum þá ekki vera að selja eignir til þess að setja inn í rekstur. Mig langar að kalla eftir viðhorfi hæstv. ráðherra gagnvart þessu. Ég spyr líka hvort hæstv. ráðherra sé sammála mér um að til að ná tökum á þessu vandamáli, skuldsetningu ríkissjóðs, vaxtagreiðslunum og vaxtakostnaði, sé mikilvægt að mun fleiri komi að því, eins og til að mynda Samtök atvinnulífsins, ASÍ og fleiri. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því að standa í þessum miklu deilum við Alþýðusamband Íslands? Er hæstv. ráðherra sammála mér um það að til þess að ná tökum á þessu mikilvæga verkefni, sem við deilum ekki um að mikilvægt er að fara í, þurfi fleiri að koma að því og mynda þurfi einhvers konar samfélagssáttmála eða þjóðarsátt um það með fleiri aðilum en pólitískum öflum á þingi?