141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

110. mál
[20:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með framsögumanni nefndarálitsins. Ég er á nefndarálitinu með fyrirvara og mun koma að honum á eftir en ég vil draga fram strax í upphafi að mínu mati vandaða málsmeðferð hjá nefndinni undir forustu bæði formanns nefndarinnar og framsögumannsins Skúla Helgasonar. Menn reifa óhikað gagnrýni og líka málefnalegar tillögur um að gera málið betra. Við vitum að það er engin þung hönd ráðuneytisins sem hvílir yfir því að reyna að vinna og efla málið. Ég held að það hafi gerst einmitt í meðförum nefndarinnar og fagna ég því. Ég vil líka segja strax að að ef við hugsum um óbreytt ástand á fyrirkomulagi þeirra listmiðstöðva ýmissa sem ég kem að á eftir tel ég rétt skref að breyta þessu svona, að komið verði á fót sérstakri skrifstofu með þessu heiti, Miðstöð íslenskra bókmennta, sem síðan sjái meðal annars um bókmenntasjóðinn eins og hann hefur verið starfræktur fram til dagsins í dag.

Ég tek jafnframt undir og fagna því sérstaklega, og við höfum rætt það áður bæði við hæstv. ráðherra og innan nefndarinnar, að það á að halda áfram með þetta verkefni með einhverjum hætti, fylgja eftir þeirri miklu bókmenntakynningu sem við stóðum að í Frankfurt á árinu 2011. Hún tókst einstaklega vel. Ég hef meðal annars átt í samskiptum við þá sem stóðu að henni hér heima og stóðu sig með stakri prýði en ekki gerðu það síður þeir sem standa fyrir bókmenntakynningunni sem slíkri. Þeir drógu fram hversu ótrúlega vel við Íslendingar hefðum staðið að öllu varðandi kynningar, skipulag og það hvernig við náðum að miðla menningu okkar með þeim hætti sem við gerðum. Þess vegna er fagnaðarefni að það sé ekki bara klippt á þráðinn og sagt að nú sé þetta bara búið heldur er þessu fylgt eftir af ákveðni. Tel ég það vel því að ég er sannfærð um það að þetta skapar mikil verðmæti.

Það er mikill misskilningur sumra, bæði innan míns flokks og annarra flokka, að menning og listir stuðli ekki að auknum hagvexti og aukinni verðmætasköpun. Ég held einmitt að þegar vel er að verki staðið og það er samheldni og samstaða um svona stór kynningarverkefni, hvort sem það er á sviði bókmennta, tónlistar eða hvaða listgreinar það er, muni það skila sér í eflingu samfélagsins, menningarinnar inn á við, og það er líka stuðningspúði ef mætti orða það þannig, m.a. fyrir aðrar atvinnugreinar sem hafa svo sannarlega byggt sig öflugt upp síðustu árin. Ég er sérstaklega með ferðaþjónustuna í huga en þeir ferðaþjónustuaðilar sem ég hef rætt við, gerði það í tengslum við bókmenntahátíðina í Frankfurt, sögðu að það skipti þá miklu máli að fá þessi tengsl, kannski við það land líka, Þýskaland, sem hefur verið okkar mesti og ötulasti stuðningsmaður, sama hvar borið er niður þegar við höfum átt í erfiðleikum í gegnum tíðina, hvort sem var í tengslum við hrunið eða á árum áður. Þjóðverjar eru alltaf ótrúlega drjúgir og mikilvægir vinir okkar.

Að því sögðu vil ég aðeins ræða betur þetta frumvarp í örstuttu máli. Eins og ég sagði er mikilvægt að leiða það stóra verkefni sem bókmenntakynningin í Frankfurt var en líka að taka til við ákveðnar breytingar.

Fyrirvari minn lýtur hins vegar að því sem ég hef áður rætt að ég kýs að segja að við séum að missa af ákveðnum tækifærum núna þegar við stöndum fyrir jafnmiklum umbreytingum á samfélaginu og innan þess og við höfum upplifað síðustu þrjú, fjögur árin. Ég hefði viljað sjá það sem var alltaf markmið leynt og ljóst, að þetta rynni allt saman í eina miðstöð. Þó að menn hafi farið af stað með ákveðnar einingar til að skjóta styrkari stoðum undir listgreinarnar sem slíkar, hvort sem það eru bókmenntir, tónlistin, kvikmyndagerðin, sviðslistir eða annað, hefði ég engu að síður viljað setja sérstakar stoðir undir bókmenntirnar, eins og meðal annars hefur komið fram í því plaggi sem hæstv. ráðherrar kynntu að mig minnir í Hörpu um uppbygginguna og framtíðarsýnina sem kennd er við 20/20.

Við eigum að sjálfsögðu að nota svona tíma til að efla greinarnar sem slíkar en við komumst ekki hjá því að horfa til allra þeirra þátta sem geta stuðlað að hagræðingu í ríkisrekstri. Mér er til efs að til lengri tíma, eða þó að það væri til skemmri tíma, sé til hagsbóta bæði fyrir greinina og ríkissjóð sjálfan að halda svona smáum einingum úti.

Þess vegna vil ég fá að lesa aðeins upp úr umsögn fjárlagaskrifstofunnar frá fjármálaráðuneytinu þar sem mér finnst hún ná að draga það fram sem hefur verið, og er, mín skoðun í þessu máli og fyrirvari minn lýtur að, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að miðstöðin verði sjálfstæð eins og skrifstofa bókmenntasjóðs er í dag en að yfir henni verði fimm manna stjórn sem muni bera ábyrgð á rekstri hennar gagnvart ráðuneytinu og ráði starfsmenn. Í þessu sambandi er ástæða til að vekja athygli á því að með frumvarpinu er verið að festa í sessi skrifstofu sem er afar lítil í sniðum. Nokkur fjöldi slíkra skrifstofa og stofnana sem hafa sambærileg verkefni eru nú starfandi annaðhvort alfarið á vegum ríkisins eða með fjárhagslegum stuðningi þess. Þær eiga það allar sammerkt að hafa það hlutverk að efla listgreinar hver á sínu sviði, ýmist með styrkveitingum til útgáfu, og sinna kynningar- og markaðsmálum heima og erlendis. Um er að ræða skrifstofur eins og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands og Útflutningsmiðstöð tónlistar. Verður ekki séð að rekstur margra og smárra sambærilegra eininga sé í samræmi við stefnu núverandi ríkisstjórnar um að sameina og stækka ríkisstofnanir og endurskoða verkaskiptingu til að ná fram hagræðingu.“

Ég verð að segja að mér er nokk sama hvort þetta er stefna ríkisstjórnarinnar eða ekki, ég er bara sammála þeirri stefnu að sameina einingarnar og gera þær hagfelldari og arðbærari en henni hefur einfaldlega ekki verið fylgt eftir eins og fjárlagaskrifstofan segir í áliti sínu.

Hún heldur áfram, með leyfi forseta:

„Hér má benda á niðurstöðu vinnuhópa“ — margir vinnuhópar sem hafa verið að störfum — „sem skoðað hafa uppbyggingu og skipulag stofnana í tengslum við aðhaldsaðgerðir og umbætur í ríkisrekstrinum. Af þeirra hálfu hafa komið fram sjónarmið um að tilefni gæti verið til að setja reglur um þá lágmarksstærð stofnana sem þurfi til þess að þær geti sinnt stjórnsýslulegri og rekstrarlegri ábyrgð óháð faglegu starfi í þeim tilgangi að draga úr kostnaði við yfirstjórn og stoðþjónustu opinbers reksturs ásamt því um leið að efla faglega hluta starfseminnar. Þegar starfseining tekur einungis til örfárra starfsmanna hlýtur ávallt að þurfa að taka til skoðunar hvort hægt sé að sameina hana öðrum litlum einingum eða tengja við aðra stærri.“

Svo mörg voru þau orð fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og vildi ég sérstaklega benda á þau af því að ég er efnislega sammála þessari nálgun. Þó að ég sé sammála og styðji þetta frumvarp eins og það er lagt fram er það miðað við umhverfið í dag. Ég hefði kosið að sjá skrefin tekin ákveðnari og stærri og það er í þessu máli eins og ég hef kannski talað um varðandi háskólana, ég sakna þess að ekki eru tekin stærri og ákveðnari skref í sameiningu og hagræðingu á sviði menningarmála og ekki síður á sviði háskólamála.

Ég vek athygli þingheims á einu er kemur inn í nefndarálitinu og ég fagna sérstaklega, tillögu nefndarinnar um nýtt ákvæði til bráðabirgða, tillögu okkar um að ráðherra skipi fimm manna samráðsnefnd. Félag íslenskra bókaútgefenda og Námsgagnastofnun tilnefna þar einn fulltrúa, hvor aðili, og síðan skipar ráðherra þrjá fulltrúa án tilnefningar og á einn þeirra að vera formaður samráðsnefndarinnar. Þarna er einmitt fjallað um það sem hv. þm. Skúli Helgason kom inn á meðal annars, hvernig hægt er með markvissum hætti að efla námsgagnagerð, lækka hugsanlega námsgagnakostnað, ekki síst hjá framhaldsskólanemendum sem hefur oft verið til umræðu í þingsal, reyna að nýta það betur og fá fólk með okkur, öll á árarnar til að stuðla að því að lækka námsgagnakostnað. Það verður meðal annars hlutverk þessarar nefndar að skoða þá nýjar leiðir, nýja tækni, hvernig hægt er að marka skýra stefnu um aukna rafbókavæðingu, það veitir nú ekki af, stafrænan aðgang almennings að höfundarréttarvörðu efni, kerfisbundin innkaup bókasafna o.s.frv. en ekki síst hvernig efla megi námsgagnaútgáfu og hvernig megi auka aðgengi nemenda að innlendum námsbókum.

Þarna eru atriði sem mér finnst skipta miklu máli. Þetta atriði í nefndarálitinu dregur líka fram þau mistök ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að leggja niður námsefnissjóðinn í þeirri mynd sem var komin á hann þar sem það var ákveðin viðleitni, mundi ég vilja segja, af hálfu framkvæmdarvaldsins að auka fjölbreytni í námsgagnaútgáfu, þ.e. ekki láta Námsgagnastofnun sjá um hana alla. Því var tekið mjög fagnandi á sínum tíma, hvort sem það var 2006 eða 2007, að gerð væri tilraun til að virkja sjálfstæða útgefendur, ekki bara ríkisútgáfuna Námsgagnastofnun, til að búa til námsgögn. Það fyrsta sem var hins vegar skorið niður var nákvæmlega þetta, það var skorið niður þar sem hið frjálsa framtak, einkaframtakið, kom að útgáfu námsgagna.

Það getur vel verið að menn hafi staðið frammi fyrir því að skera niður og hagræða en ég hefði gjarnan viljað sjá allt eins gerða hagræðingarkröfu til Námsgagnastofnunar til þess eins að halda þeirri fjölbreytni sem skiptir máli varðandi námsgagnagerð og útgáfu í gegnum námsefnissjóðinn. Ég tel að með skipan þessarar nefndar muni hún meðal annars fara yfir það hvernig við getum stuðlað að og skapað þannig umhverfi að það verði svigrúm fyrir fleiri útgefendur á sviði námsgagna á grunnskólastigi en Námsgagnastofnun eina og sér. Ég vil gera allt til að svo verði. Ég er samt ekki með þessu að segja að það eigi að einkavæða Námsgagnastofnun, það hefur verið reynt í gegnum tíðina. Mín skoðun er að við eigum að hafa þennan markað meðal útgefenda sem hafa bersýnilega staðið sig vel enda hefðu skólarnir sem fengu úthlutanir úr námsefnissjóðnum á sínum tíma ekki leitað fyrst og fremst til sjálfstæðra útgefenda um námsefni ef svo hefði ekki verið. Þar sáum við fram á að þegar nemendum og skólastjórnendum er treyst fyrir því að kaupa sjálfir inn námsefni leita þeir allt eins til einkaaðila.

Að svo mæltu undirstrika ég að þrátt fyrir athugasemdir og pælingar í tengslum við þetta mál mun ég leggja til að við samþykkjum frumvarpið, þó með það í huga að það er ekki verið að nýta þau tækifæri sem menn hafa í dag til að hagræða og skipuleggja betur. Það er akkúrat á svona tímum, tímum umbreytinga, sem menn eiga að vera stórhuga, taka stór skref í þá veru að breyta skipulaginu, breyta kerfinu, um leið og við reynum að ná hagræðingu í rekstri ríkissjóðs.

Að öðru leyti vil ég einmitt undirstrika það sem ég sagði í byrjun, þakka fyrir góða vinnu í nefndinni, ekki síst forustumanna nefndarinnar Skúla Helgasonar og formannsins Björgvins G. Sigurðssonar sem leiddu þetta mál hv. þingmanna.