151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, við ræðum hér Covid-19 og horfurnar fram undan. Ég ætla að leyfa mér að horfa svolítið lengra fram í tímann en við höfum mörg gert hér í dag. Það er auðvitað engin launung að við höfum náð miklum árangri í baráttu okkar við Covid-19 en það er einfaldlega þannig að baráttan við Covid-19 snýst ekki eingöngu um dauðsföll eða innlagnir á gjörgæsludeildir. Rannsóknir erlendis, sem þó eru auðvitað ekki langt komnar, sýna fram á að a.m.k. 10% þeirra sem fá þennan sjúkdóm geta glímt við langvarandi einkenni. Forstjóri Reykjalundar og framkvæmdastjóri lækninga Reykjalundar, þeir Pétur Magnússon og Stefán Yngvason, rituðu góða grein í Morgunblaðið nú fyrr í þessum mánuði sem bar heitið Samstaða á lokasprettinum. Þar fóru þeir aðeins yfir þessa þætti. Á Reykjalundi hafa um 30 manns lokið endurhæfingu, aðrir 30 eru kannski í endurhæfingu og biðlistarnir eitthvað sambærilegir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sér fyrir sér að við vinnum með þessa þætti. Hvaða hlutverki gegnir Reykjalundur í þeirri baráttu okkar? Hvaða önnur endurhæfingarúrræði kunna að vera í boði og þá kannski ekki síst, hvernig sjáum við frekari rannsóknir á eftirköstum Covid og hvaða árangri er hægt að ná með endurhæfingu? Hvaða hlutverk leikur Reykjalundur í þeirri baráttu?

Ég kem kannski aðeins inn á aðra þætti í seinni spurningunni hvað varðar eftirköst vegna Covid. Annars vegar erum við að tala um langvarandi veikindi sem Reykjalundur og fleiri meðferðaraðilar eru að fara að vinna með en hins vegar er það geðrækt sem við höfum líka komið lítillega inn á — hverjar eru áætlanir hæstv. ráðherra þegar kemur að þessum þáttum?