152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka að það er eðlilegt að alvöruumræða fari fram um þessa sölu eins og við höfum reyndar staðið fyrir til þessa. Við höfum verið í samskiptum við þingið og með málið til vinnslu í fleiri en einni þingnefnd þannig að þetta fyrirkomulag á sölunni var opinbert og var rætt við þingið, og við fengum skoðun á því áður en ráðist var í söluna. Ég vil ítreka að það er Bankasýslan sem að lögum framkvæmir söluna og ég er alveg sannfærður um að Bankasýslan er tilbúin að koma hingað í þingið og gera betur grein fyrir rökunum á bak við þá aðferð sem valin var. En ég verð aðeins að nefna að mér finnst það skjóta dálítið skökku við þegar sama fólkið og kemur hingað upp og vill leggja áherslu á að við höfum ekki fengið nógu hátt verð talar fyrir því að við hefðum átt að breyta þessu í samfélagsbanka. Þá hefðum við nú aldeilis getað afskrifað stóran hluta af eigninni.