137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra mæðist í mörgu og það liggur á, ég skil það fullkomlega. Hins vegar skiptir líka verulegu miklu að þetta mál sem við erum að samþykkja verði kynnt um alla Evrópu. Við megum ekki lenda í því að erlendir ráðamenn, forsætisráðherra Hollands eða fjármálaráðherra, gefi einhverjar yfirlýsingar vegna vanþekkingar eða ókunnugleika á stöðu Íslendinga. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að við kynnum þetta mál um alla Evrópu.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra nákvæmlega eins og ég spurði hæstv. fjármálaráðherra, vitandi það að við breytum ekki fortíðinni, hvort hún sé ekki til í að þingi verði frestað í tvær vikur og þingmenn verði sendir út af örkinni og allt verði sett í gang í bæði utanríkisþjónustunni og hvar sem er, setja inn í þetta 200–300 millj. mín vegna og kynnum málstað okkar um alla Evrópu, frá Portúgal til Litháens og allt þingið verði notað til þess.